Viðskipti innlent

Mikill áhugi á að kaupa bréf í Hörpu

Harpan var formlega opnuð 4. maí síðastliðinn með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg ákváðu að klára byggingu hússins eftir að fyrri eigendur þess gátu það ekki. fréttablaðið/Valli
Harpan var formlega opnuð 4. maí síðastliðinn með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg ákváðu að klára byggingu hússins eftir að fyrri eigendur þess gátu það ekki. fréttablaðið/Valli
Skuldabréfaútgáfa upp á 18,3 milljarða króna til að endurfjármagna lántökur vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu gæti orðið að veruleika í janúarmánuði. Portus, sem heldur utan um eignarhald Hörpunnar, hefur átt í viðræðum við banka um að sjá um útgáfuna og eru þær langt komnar. Þetta staðfestir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar. Hann segist sannfærður um að mikil eftirspurn verði eftir bréfunum, sérstaklega vegna þess að lítið er um fjárfestingartækifæri á Íslandi fyrir stóra fjárfesta á borð við lífeyrissjóði um þessar mundir.

Portus er dótturfélag Austurhafnar-TR, sem er eigandi Hörpu. Austurhöfn er í 54% eigu íslenska ríkisins og 46% eigu Reykjavíkurborgar. Félagið tók sambankalán hjá Landsbanka, Arion banka og Íslandsbanka í janúar 2010 til að fjármagna byggingu hússins. Það lán dugði þó ekki fyrir stofnkostnaði og því samþykktu eigendur Austurhafnar, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, að lána félaginu 730 milljónir króna til viðbótar í lok síðasta árs. Til stendur að endurgreiða bæði sambanka- og eigendalánið þegar skuldabréfaútgáfan hefur verið seld.

Pétur segist telja útgáfuna vera vel seljanlega. Ávöxtunarkrafan sem verði í boði verði þó líklega lægri en sú sem lífeyrissjóðir horfa vanalega á. „Ég er sannfærður um að það verði mikil eftirspurn eftir þessum bréfum. Við höfum fundið það á viðbrögðunum. Sérstaklega hjá minni lífeyrissjóðum. Það eru ekki mörg kauptækifæri fyrir lífeyrissjóði í dag."

Kostnaður eigenda Hörpunnar vegna sambankalánsins er sem stendur um 960 milljónir króna á ári. Lánið ber breytilega vexti og verður verðtryggt frá og með lokum febrúar næstkomandi. Því ríkir ákveðinn óvissa um hver endanlegur kostnaður ríkis og borgar vegna byggingu Hörpunnar verður á meðan það hefur ekki verið endurfjármagnað.

Að sögn Péturs gæti útgáfan orðið að veruleika núna í janúar. Það fari eftir niðurstöðum úr viðræðum við banka sem standi yfir um þessar mundir. Hann segir þó ekkert liggja á. „Ef við förum í útgáfu núna þá mun fjármagnskostnaður félagsins mögulega hækka aðeins til að byrja með. Við erum með mjög hagstæð kjör á sambankaláninu en það eru breytilegir vextir á því sem verða verðtryggðir frá og með lokum febrúar næstkomandi. Við erum því að leita í öryggið."

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×