Viðskipti innlent

A4 í eigu sömu aðila og Office 1

Egilsson á og rekur nú samtals tíu ritfangaverslanir víða um land.
Egilsson á og rekur nú samtals tíu ritfangaverslanir víða um land.
Heildverslunin Egilsson ehf. hefur keypt ritfangaverslanakeðjuna A4 af Björgu, eignarhaldsfélagi í eigu Sparisjóðsbankans. Fyrir á og rekur Egilsson ritfangaverslanirnar Office 1. Kaupverð er trúnaðarmál.

Fjöldi ritfangaverslana í eigu Egilsson er nú átta. A4 rekur tvær verslanir; staðsettar í Reykjavík og á Akureyri og Office 1 rekur fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu og eina á Egilsstöðum og Selfossi. Rekstur verslananna verður óbreyttur fyrst um sinn, að því er segir í tilkynningu frá Egilsson.

Báðar verslanakeðjurnar urðu gjaldþrota á árinu 2009. Var rekstur A4 settur inn í nýtt félag árið 2009 sem var svo selt til Bjargar. Hið nýja A4 tapaði 95,5 milljónum króna á árinu 2010 en eigið fé þess var 55 milljónir í upphafi árs 2011.

Félagið sem átti Office 1 fór í greiðslustöðvun um mitt ár 2009 og var reksturinn þá settur inn í nýtt félag og seldur til Egilsson sem hafði áður átt fyrirtækið. Hið nýja félag hefur enn ekki gefið út ársreikning.

Egilsson er ein helsta heildsala landsins á sviði verslunar með ritföng, leikföng, gjafavörur og árstíðabundnar vörur. Fjöldi starfsmanna er nú um 80.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×