Lífið

Risaforlagið Random House gefur út Pabbabók Bjarna

Bjarni Haukur Þórsson þarf að skila bókinni af sér í sumar og hefur því nóg að gera við ritun bókarinnar.
Bjarni Haukur Þórsson þarf að skila bókinni af sér í sumar og hefur því nóg að gera við ritun bókarinnar. fréttablaðið/gva
„Tilboðið frá Random House var eiginlega þannig að það var ekki hægt að segja nei við því. Þetta er mjög góður samningur," segir leikarinn og leikstjórinn Bjarni Haukur Þórsson.

Hann hefur undirritað útgáfusamning við risaforlagið Random House um að hann skrifi bók byggða á einleiknum Pabbinn. „Þetta er skálduð sjálfsævisaga byggð á eigin reynslu. Þetta verður vonandi mjög fyndin bók sem fjallar um það að vera faðir og öllu sem því fylgir. Maður hefur fundið það í gegnum áhugann á leikverkinu að það er gríðarlegur áhugi á stöðu karlmannsins sem uppalanda og föður, hvort sem hann er einstæður eða ekki," segir Bjarni Haukur sem var að vonum upp með sér þegar Random House hafði samband við hann. „Það var alveg frábært en svo vaknaði ég í svitakasti daginn eftir og áttaði mig á að maður þyrfti að gera þetta líka."

Pabbinn, sem um þrjátíu þúsund manns sáu hér á landi, hefur verið á fjölunum í Þýskalandi síðustu tvö ár við góðar undirtektir. Yfir eitt hundrað þúsund manns hafa séð einleikinn, auk þess sem þýsk kvikmynd byggð á Pabbanum fer í tökur síðar á þessu ári eftir handriti Bjarna Hauks og Ólafs Egilssonar. „Í ljósi þess að ég gekk frá sölu á kvikmyndaréttinum vaknaði áhugi á að gefa út bók og þeir komu til mín með þessa hugmynd," segir hann um áhuga Random House.



Þessa dagana situr Bjarni Haukur sveittur við skriftir á bókinni en hann á að skila henni af sér í sumar. Bókin kemur fyrst út í Þýskalandi, líklega í lok ársins eða í byrjun þess næsta, og í framhaldinu kemur hún út í fleiri löndum. Einleikurinn Pabbinn er þegar búinn að plægja akurinn fyrir bókina því hann hefur verið sýndur í 25 löndum við miklar vinsældir.

Pabbabókin verður sú fyrsta sem Bjarni Haukur sendir frá sér og má segja að hann byrji á toppnum því Random House er eitt stærsta bókaforlag heims. Það er í eigu Þjóðverja en er með höfuðstöðvar í New York. „Það hefði kannski verið rökréttara að byrja á Íslandi en heimurinn er óútreiknanlegur. En þetta er frábært í alla staði og mikil viðurkenning."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.