Sport

Helga Margrét fer ekki á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir náði sínum besta árangri í sjöþraut á árinu en það dugði henni engu að síður ekki til að vinna sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Lundúnum.

Helga keppti sem gestur á franska meistaramótinu í fjölþraut og fékk samtals 5.752 stig sem er tæpum 200 stigum frá Ólympíulágmarkinu. Íslandsmet hennar í greininni er 5.878 stig og var sett í Tékklandi fyrir þremur árum síðan.

Í dag stökk hún 5,58 m í langstökki, kastaði 49,82 m í spjótkasti og hljóp 800 m hlaup á 2:17,42 mínútum.

Í fréttatilkynningu Vésteins Hafsteinssonar, umboðsmanns hennar, segir hann að Helga Margrét sé ekki tilbúin til þátttöku á meðal þeirra bestu ennþá, þar sem hún náði hvorki lágmörkum fyrir EM sem fór fram fyrr í sumar né heldur Ólympíuleikana.

„Hún er að gera fína hluti í köstunum og 800m, hleypur síðan grindina og 200m betur en undanfarin tvö ár þannig að það er á réttri leið. Hún klikkaði svo í hástökkinu sem hefur verið að ganga mjög vel síðasta árið og langstökkið er síðan ennþá mjög slakt."

„Framtíðin er Helgu og ég efast ekkert um hæfileika hennar til þess að blanda sér í baráttu þeirra bestu í heimi en það verður eftir 4-8 ár ef að líkum lætur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×