Handbolti

Enginn er búinn undir svona áfall

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes jón er hér í leik gegn meisturum kiel. hann spilar ekki handbolta á næstunni.nordicphotos/bongarts
Hannes jón er hér í leik gegn meisturum kiel. hann spilar ekki handbolta á næstunni.nordicphotos/bongarts
Lífið hjá hinum 32 ára gamla Hannesi Jóni Jónssyni tók óvænta stefnu fyrir um sex vikum. Þá var hann greindur með krabbamein en illkynja æxli fannst í þvagblöðrunni. Hannes var settur í aðgerð daginn eftir þar sem þrjú illkynja æxli voru fjarlægð.

Hann átti von á því að fara í létta skoðun í gær en af því varð ekki. Hann neyðist til þess að leggjast undir hnífinn á nýjan leik.

„Þeir skera aftur á sama stað. Taka ný sýni sem verða síðan send í ræktun. Ég hélt þetta yrði létt skoðun. Svo myndi ég gefa háa fimmu og fara heim en svo var nú aldeilis ekki," sagði Hannes við Fréttablaðið í gær en hann þarf að liggja á spítalanum fram yfir helgi.

„Ég fæ svo vonandi einhver góð tíðindi úr þessari ræktun. Ég er samt aftur kominn á byrjunarreit hvað varðar handboltann. Ég var að búa mig undir að spila um helgina. Ég verð að taka þessu. Byrja svo að æfa upp á nýtt í næsta mánuði og reyna að vera tilbúinn í slaginn eftir áramót. Það er mitt markmið eins og staðan er núna."

Leikmaðurinn hefur verið ágætur til heilsunnar síðan hann gekkst undir aðgerðina fyrir um sex vikum.

„Heilsan hefur verið merkilega góð. Ég fór hægt af stað en var kominn í ræktina um viku eftir aðgerðina. Fór eðlilega bara hægt af stað með því að labba á bretti og hanga í gufu. Það hefur svo verið fínn stígandi í þessu. Ég hef ekkert æft með strákunum en hef verið að hlaupa síðustu vikuna. Ég tók þrjá kílómetra á ellefu mínútum í morgun [í gær] og er í þrusustandi," sagði Hannes, en að lenda í slíku áfalli tekur eðlilega einnig á andlega líðan manna.

„Þetta var mikið sjokk að sjálfsögðu. Þetta var erfitt. Það kemur sér vel að maður á góða að. Á endanum er þetta samt spurning um að setja kassann út og bera sig vel. Ég held að maður sé aldrei undir svona áfall búinn. Ég held að enginn geti sagt það með góðri samvisku að hann hafi verið búinn undir svona fréttir," sagði Hannes en hann átti kannski síst von á því að lenda í slíku þar sem hann er atvinnumaður í íþróttum og lífsstílinn í samræmi við það.

„Ég er ungur, hraustur og í góðu formi og maður hefur litið á þetta sem gömlukarla sjúkdóm hingað til. Ég reyni að ganga út frá því besta og reyni að skipuleggja mig í samræmi við það."

Hvað svo sem kemur úr nýjustu rannsóknum liggur fyrir að Hannes verður alltaf undir eftirliti næstu fimm árin.

„Þetta er risastórt verkefni sem er lagt á mig og alla fjölskylduna. Ég er samt jákvæður og ef ég tækla þetta ekki þá tæklar þetta enginn," sagði Hannes Jón Jónsson ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×