Innlent

Nauðungarsölu ekki frestað þrátt fyrir hæstaréttardóm

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Sýslumannsembættið í Reykjavík hefur ekki tekið ákvörðun um að fresta nauðungarsölum á fasteignum vegna óvissu um gengislán. Allajafna er það undir bönkunum komið hvort fólk geti fengið frest á nauðungarsölum. Skuldara var, að eigin sögn, neitað um frestun á nauðungarsölu eftir að Hæstaréttardómurinn féll.

Lánveitendur hafa óskað eftir að setja hundruð eigna á nauðungarsölu í Reykjavík síðustu mánuði, en allt að allt að hálft ár getur liðið frá því nauðungarsölubeiðni berst og þar til eign er seld á uppboði. Fréttastofa spurði Sigríði Eysteinsdóttur deildarstjóra hjá embættinu í dag hvort til stæði að fresta nauðungarsölum meðan óvissa væri um túlkun Hæstaréttardómsins í síðustu viku.

Sigríður kvaðst ekki vita hvort uppboð væru í vændum vegna gengislána en sýslumaður gæti ekki frestað þeim. Fólk yrði að leita til bankanna til að óska eftir frestun. Að vísu hefðu sýslumenn heimild í lögum til að stöðva nauðungarsölu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það yrði skoðað í hverju tilviki fyrir sig. Þeirri heimild hefði í fáein skipti verið beitt eftir hrun vegna eigna með áhvílandi gengislán.

49 eignir hafa verið seldar á nauðungaruppboði hjá sýslumanninum í Keflavík frá áramótum - fleiri en í höfuðborginni, en að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, staðgengils sýslumanns, hafa gengislán ekki skipt sköpum á uppboðum í þeirra umdæmi, heldur önnur vanskil. Því hafi menn ekki þurft að taka ákvörðun um frestun vegna Hæstaréttardómsins.

Heimili Sturlu Jónssonar fer á uppboð undir lok mars, einkum vegna gengisláns. Hann óskaði eftir frestun uppboðsins vegna óvissunnar eftir dóminn.

„Já, ég er búinn að tala við sýslumanninn, gerði það strax eftir dóminn og bað um að fresta nauðgunrasölunni, en hann hann sá ekki ástæðu til að fresta henni," segir Sturla og bætir við: „Ég hafði nú samband við bankann og fékk þær upplýsingar að það verður ekki hætt við þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×