Skoðun

Fjórir ráðherrar – ekkert að frétta?

Sverrir Bollason skrifar
Spurt er: Hve litlu geta fjórir ráðherrar komið í verk á einu ári? Svarið má glöggt sjá á árangri vinnu ráðherranefndar í lánsveðsmálum sem var skipuð í febrúar síðastliðnum. Tillögur nefndarinnar áttu að liggja fyrir strax í mars, þar sem hin sérstaka ráðherranefnd átti að útfæra leiðir til að mæta lánsveðshópnum, en ekkert bólar á þeim.

110% leiðin svokallaða byggði á samkomulagi milli stjórnvalda, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja þar sem ákveðið var að lánsveðshópurinn skyldi skilinn eftir. Allir sem skulduðu meira en 110% af verðmæti húsnæðis síns fengu mismuninn felldan niður. Einn hópur var undanskilinn, þeir sem höfðu fengið lánað veð t.d. í eign foreldra en með lánið alfarið á nafni lántakans. Samtals eru þetta um 4.000 heimili sem fengu lánað hjá stærstu lífeyrissjóðunum og talan er sambærileg hjá bönkum og öðrum lífeyrissjóðum. Hvers eiga þessi heimili að gjalda? 110% leiðin hefur því ekki verið kláruð á sanngjarnan hátt.

Lítið miðað áfram

Í viðræðum stjórnvalda við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hefur lítið miðað áfram. Lífeyrissjóðirnir hafa litið undan vandamáli þessa hóps og verið laumufarþegar í 110% leiðinni. Af 50.000 milljóna afskriftum vegna 110% leiðarinnar hafa lífeyrissjóðirnir lagt til 410 milljónir. Það er þátttaka lífeyrissjóðanna í að endurreisa fjármálakerfi heimilanna. Þó hefur 360 milljörðum verið varið í að afskrifa slæmar viðskiptaákvarðanir og ekki fóru sjóðirnir varhluta af góðæri í útlánastarfsemi eða æsilegum hagnaði af verðtryggðum lánum til sjóðfélaga í verðbólgu síðustu ára. Þegar málflutningur lífeyrissjóðanna á undanförnum misserum í þessu máli er rýndur og settur í samhengi má sjá að hann ber þess merki að þungavigtarstofnanir þessa lands koma fram í opinberri umræðu lausar við samfélagslega ábyrgð.

Í ljósi pattstöðu málsins og forkastanlegrar sáttatillögu lífeyrissjóðanna til ráðherranefndarinnar í síðustu viku boðar lánsveðshópurinn til fundar í kvöld kl. 20.00 í Odda, byggingu Háskóla Íslands. Þangað hafa jafnframt verið boðaðir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, lífeyrissjóðanna og þingmenn. Við hvetjum alla þá sem mál þetta varðar til að koma.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×