Enski boltinn

Yaya Toure tekur sér frí frá landsliðinu | Einbeitir sér að Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaya Toure og Kolo Toure.
Yaya Toure og Kolo Toure. Mynd/Nordic Photos/Getty
Yaya Toure, miðjumaður Manchester City og landsliðs Fílbeinsstrandarinnar, hefur tekið þá ákvörðun að taka sér frí frá landsliðinu á næsta tímabili til þess að geta einbeitt sér að fullu að því að spila með Manchester City.

Yaya Toure hefur átt mjög gott tímabil með Manchester City en hann missti úr sex vikur í byrjun ársins þegar hann tók þátt í Afríkukeppninni með Fílbeinsströndinni. Það mátti sjá greinilega að fjarvera hans hafði slæmt áhrif á City-liðið.

Yaya Toure er orðinn þreyttur á miklu álagi og fótboltavefmiðillinn Goal.com hefur það eftir fjölskyldumeðlimum Toure að hann ætli nú að taka sér hvíld frá lýjandi landsliðsverkefnum.

Yaya Toure er líka allt annað en sáttur við þá stífni Francois Zahoui, þjálfara landsliðs Fílbeinsstrandarinnar, að leyfa honum og bróður hans ekki að seinka því að koma til móts við landsliðið fyrir Afríkukeppnina í janúar svo að þeir gætu spilað mikilvægan bikarleik á móti Manchester United. City lék án þeirra og United-liðið sló nágranna sína út úr enska bikarnum.

Þeir bræður Yaya Toure og Kolo Toure hafa alltaf látið landsliðið ganga fyrir hingað til en nú lítur út fyrir að landslið Fílbeinsstrandarinnar verði án Toure í næstu verkefnum sínum. Yaya Toure sem er 28 ára gamall fær um 200 þúsund pund í vikulaun frá Manchester City sem eru rúmar 40 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×