Viðskipti innlent

Tuttugu pósthúsum lokað frá árinu 1998

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, fundaði í vikunni með forsvarsmönnum íbúasamtaka í Breiðholti sem mótmæltu lokun pósthúss Íslandspósts í Mjódd.Fréttablaðið/Stefán
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, fundaði í vikunni með forsvarsmönnum íbúasamtaka í Breiðholti sem mótmæltu lokun pósthúss Íslandspósts í Mjódd.Fréttablaðið/Stefán
Með lokun pósthúss Íslandspósts í Mjódd hefur Íslandspóstur lokað 21 pósthúsi frá stofnun félagsins árið 1998. Pósthúsið er jafnframt það fimmta sem lokað er á höfuðborgarsvæðinu.

„Til að leita lausna á landsbyggðinni hefur Íslandspóstur einnig farið í samstarf með 38 aðilum um póstþjónustu á ákveðnum svæðum, svo sem Landsbankanum, sparisjóðum og kaupfélögum,“ segir í tilkynningu Íslandspósts í gær.

Lokun pósthússins í Mjódd hefur verið mómælt af íbúasamtökum í Breiðholti og hafa þau notið stuðning Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, en hann hefur lýst fyrirætlunum um að kæra til úrskurðarnefndar heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til Íslandspósts til að loka pósthúsinu. Með tilkynningu sinni í gær vildi Íslandspóstur árétta að erfiðleikar í rekstri skýri ákvörðun um lokun.

Á sama tíma og upplýst var um þá fyrirætlan að loka pósthúsinu í Mjódd birti Íslandspóstur uppgjör fyrir síðasta ár, en tap félagsins á árinu 2011 nemur 144,3 milljónum króna. Árið 2010 skilaði fyrirtækið hins vegar tæplega 93 milljóna króna hagnaði. Tekjur fyrirtækisins námu rúmum 6,5 milljörðum króna í fyrra, jukust um þrjú prósent milli ára.

Í tilkynningu um uppgjör ársins kemur fram að grípa þurfi til frekari hagræðingaraðgerða. Þannig horfi stjórn og stjórnendur Íslandspósts til frekari hagræðingar sem megi og þurfi að ná „með auknum sveigjanleika í afhendingartíma bréfa og breytingum á reglum um staðsetningu bréfakassa“. Í tilkynningu félagsins í gær kemur jafnframt fram að auk fækkunar á dreifingardögum og færslu póstkassa út að lóðarmörkum, sé horft til verðhækkana og annarra breytinga á þjónustustigi.

Íslandspóstur hefur upplýst að bréfasendingar hafi dregist verulaga saman á undanförnum árum. Þannig hafi einkabréfasendingum fækkað um 30 prósent frá árinu 2006. „Spáð er áframhaldandi magnminnkun og er áætlað að bréfamagn muni minnka enn um allt að 16 prósent til ársins 2015,“ sagði í uppgjörstilkynningu.

Eins var bent á að reglur um bréfadreifingu kvæðu á um dreifingu í öll hús alla virka daga ársins, þar sem því verði við komið. „Og nær sú þjónusta til 99,8 prósenta heimila og fyrirtækja á landinu.“ Almennar kostnaðarhækkanir vegna launa- og verðlagsþróunar eru sagðar hafa leitt til hækkunar á föstum kostnaði.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×