Viðskipti innlent

Arctic Trucks með stóran samning í Arabalöndum

Andrew Squires sölustjóri hjá Al-Futtaim Motors og Hjalti V. Hjaltason verkefnisstjóri hjá Arctic Trucks Emirates við undirritun samningsins
Andrew Squires sölustjóri hjá Al-Futtaim Motors og Hjalti V. Hjaltason verkefnisstjóri hjá Arctic Trucks Emirates við undirritun samningsins
Arctic Trucks Emirates í Dubai, dótturfélag Arctic Trucks International hefur skrifað undir samning við Al-Futtaim Motors, umboðsaðila Toyota í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, um breytingar á allt að 400 Toyota Hilux og Toyota FJ Cruiser á næstu tólf mánuðum.

Í tilkynningu segir að þetta sé stærsti einstaki samningur sem Arctic Trucks hefur gert varðandi breytingar á bílum fyrir almennan markað.

Í samningnum skuldbindur Al-Futtaim Motors sig til að kaupa Arctic Trucks breytingar fyrir að minnsta kosti 201 bíl af gerðinni Toyota Hilux og 201 bíl af gerðinni Toyota FJ Cruiser. Um er að ræða breytingar sem kallaðar eru AT285. Að auki felur samningurinn í sér að Arctic Trucks mun á næstu mánuðum hanna minni útfærslu af 35 tommu breytingu fyrir Toyota Land Cruiser 200 sem hentar betur fyrir þennan markað.

Arctic Trucks Emirates er dótturfélag Arctic Trucks International og hefur rekið breytingaverkstæði í Dubai frá árinu 2010. Samningur þessi kemur í framhaldi farsæls samstarfs við Al-Futtaim Motors og styrkir verulega starfsemi Arctic Trucks Emirates auk þess sem hann opnar leið inn á nýja og spennandi markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×