Handbolti

Noregur á þrjá leikmenn í úrvalsliðinu - Edin valin best

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anja Edin og Camilla Herrem.
Anja Edin og Camilla Herrem. Mynd/AFP
Noregur og Svartfjallaland mætast á eftir í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í handbolta í Serbíu en í dag var tilkynnt um hvaða leikmenn komust í úrvalslið mótsins. Noregur á þrjá leikmenn í úrvalsliðinu og Svartfjallaland tvo alveg eins og gestgjafar Serbíu.

Markvörðurinn Katrine Lunde Haraldsen og línumaðurinn Heidi Löke voru valdar í úrvalsliðið úr norska liðinu en Löke hefur þar með verið í úrvalsliðinu á fjórum stórmótum í röð.

Anja Edin var síðan kosin besti leikmaður keppninnar en Þórir Hergeirsson tók hana inn í landsliðið fyrir þessa keppni og hefur þessi snaggaralegi leikstjórnandi slegið í gegn á mótinu.

Hægri skyttan Katarina Bulatovic og hægri hornamaðurinn Jovanka Radicevic voru fulltrúar Svartfellinga í úrvalsliðnu en aðrar í liðinu eru Polina Kuznetcova, vinstri hornamaður Rússlands, Sanja Damnjanovic, vinstri skytta Serbíu og Andrea Lekic leikstjórnandi Serbíu. Anja Althaus í Þýskalandi var síðan valin besti varnarmaður keppninnar.

Katarina Bulatovic stórskytta Svartfellinga á síðan markaskóngstitlinn vísan þrátt fyrir að sumir leikmenn mótsins eigi leik inni. Bulatovic hefur skorað 48 mörk á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×