Handbolti

Uppgjör gömlu herbergisfélaganna

Alfreð er alltaf líflegur.
Alfreð er alltaf líflegur.
Stórleikur ársins í þýska handboltanum fer fram í kvöld. Þá tekur topplið deildarinnar, Rhein-Neckar Löwen, á móti Þýskalandsmeisturum Kiel. Löwen er búið að vinna alla leiki sína í deildinni en Kiel hefur gert eitt jafntefli og situr í öðru sæti, aðeins stigi á eftir Löwen.

Löwen hefur komið allra liða mest á óvart í vetur með frábærri spilamennsku undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. Stærsta próf vetrarins er þó í kvöld er liðið fær að glíma við lærisveina Alfreðs Gíslasonar sem hafa spilað 50 leiki í röð í deildinni án þess að tapa. Það er einstakur árangur.

Ef eitthvert lið í Þýskalandi getur stöðvað þetta ótrúlega gengi Kiel þá er það hið sjóðheita lið Löwen sem er þess utan á heimavelli og verður dyggilega stutt af rúmlega 13 þúsund áhorfendum í SAP Arena. Það er löngu uppselt á leikinn og sagði Guðmundur við Fréttablaðið á dögunum að þeir hefðu auðveldlega getað selt hátt í 20 þúsund miða á leikinn.

Þjálfarar liðanna, Alfreð og Guðmundur, eru gamlir félagar. Þeir léku lengi vel með landsliðinu á sínum tíma og voru þá herbergisfélagar. Þeir hafa einnig báðir stýrt íslenska landsliðinu.

Gríðarleg spenna er í Þýskalandi fyrir uppgjöri gömlu herbergisfélaganna. Tekst Guðmundi að velta Alfreð og félögum af stalli í bili eða fer Kiel eina ferðina enn á toppinn?

Landsliðsþjálfari Þýskalands, Martin Heuberger, á ekki von á því að Guðmundi og lærisveinum hans takist að velta Kiel af stalli sínum að þessu sinni.

„Kiel er of sterkt lið fyrir Löwen eins og staðan er í dag. Er með sterkara byrjunarlið og meiri breidd á bekknum að auki. Það munar mikið um það," sagði Heuberger en hann spáir því að markverðirnir verði í lykilhlutverki eins og svo oft áður.

„Löwen er með besta markvarðapar deildarinnar, Niklas Landin og Goran Stojanovic. Thierry Omeyer hjá Kiel er aftur á móti oftast bestur þegar allt er undir."

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×