Ólafur Ólafsson, leikmaður körfuboltaliðs Grindavíkur, var borinn af velli með slæm ökklameiðsli í leik liðsins gegn Stjörnunni sem nú stendur yfir.
Ólafur féll til jarðar eftir baráttu við leikmann Stjörnunnar og lenti illa á ökklanum. Það sást greinilega að ökklinn var illa farinn en ákveðið var í útsendingu Stöðvar 2 Sports frá leiknum að sýna atvikið ekki aftur í endursýningu.
Ólafur var sárkvalinn og þurfti að gera hlé á leiknum á meðan hugað var að honum. Hann var borinn af velli undir dynjandi lófataki áhorfenda og þakkaði Ólafur fyrir sig með því að klappa duglega á móti.
Leikurinn heldur nú áfram og má fylgjast með lýsingu frá honum hér. En það sló greinilega óhug á leikmenn sem og áhorfendur í Ásgarði í Garðabæ.
Þetta er fjórði leikur liðanna í undanúrslitarimmu úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla.

