Erlent

Hjálparstarfsfólki hleypt inn

Ónýtir skriðdrekar stjórnarhersins á götu í bænum Ariha.
Ónýtir skriðdrekar stjórnarhersins á götu í bænum Ariha. nordicphotos/AFP
Stjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta hefur fallist á að hleypa hjálparstarfsfólki inn á þau fjögur svæði sem harðast hafa orðið úti í átökunum í landinu.

John Ging, framkvæmdastjóri samhæfingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagðist vonast til þess að aðstoð berist fólki á þessum svæðum innan fárra daga, frekar en vikna.

Á hinn bóginn sagði Sýrlandsstjórn í gær marga vestræna stjórnarerindreka ekki lengur velkomna til landsins. Þetta eru ríki á borð við Bandaríkin, Bretland og fleiri lönd, sem höfðu hvort eð er kallað erindreka sína heim í mótmælaskyni vegna átakanna.

Átökin í Sýrlandi hafa kostað á annan tug þúsunda lífið síðan þau hófust snemma á síðasta ári.

Ging sagði að margir þeirra, sem þurfa á aðstoð að halda í héruðunum fjórum, hefðu særst í átökum. Aðrir hafa misst vinnuna eða misst heimili sitt. Að auki er verið að aðstoða nærri 80 þúsund sýrlenska flóttamenn í Tyrklandi, Írak, Jórdaníu og Líbanon. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×