Skoðun

Búktal fyrir þjóðarhag

Jónas Bjarnason skrifar
Fiskveiðar eru okkur Íslendingum hjartans mál og hafa verið frá ómunatíð. Og síðustu áratugina erum við langt í frá sammála um hvernig fiskveiðum skuli háttað. Kvótakerfið var lögleitt 1984 og takmarkaði það aðgengi að fiskiauðlindinni sem fram að því var óhindruð. Byggðist kerfið annars vegar á áformum um fiskvernd og hins vegar á tekjutilkalli þeirra útgerða sem voru fyrir. Litlar deilur hafa verið um fyrrnefnda atriðið en því mun meiri um hið síðara.

Úthlutun veiðiheimilda 1984 byggði á veiðireynslu áranna 1980-83. Síðari tíma útgerðarmenn hafa því sumir keypt veiðirétt af þeim sem voru svo „útsjónarsamir" að sækja sjóinn fyrrgreint tímabil. Þetta er augljós mismunun og hafa menn farið í mál en án árangurs. Íslenskir dómstólar hafa metið það svo að hagkvæmnisrök réttlæti takmarkað aðgengi að auðlindinni. Mannréttindanefnd SÞ komst aftur á móti að annarri niðurstöðu.

Hagkvæmni er vinsælt hugtak. Í því felst yfirleitt að stækka og/eða minnka kostnað. Hafa eitt fjall í stað margra hóla. Risinn ræður yfir meira fjármagni og nær forskoti í krafti stærðarinnar. Aðrir ráða sig í vinnu hjá risanum og læra að ganga í takt við hann. Risinn ræður öllu og líf annarra er háð hans dyntum og skapsveiflum. Ef hann dafnar fjárfestir hann í meiri hagræðingu, ef hann fellur verða allir undir. Risinn rís svo fyrstur á lappir. Þannig hefur hagræðingarhagfræðin reynst a.m.k. þessari þjóð. Þessi hagfræði er ágæt þegar menn framleiða sápur en þegar um er að ræða takmarkaða auðlind þjóðar getur hún verið stórvarasöm.

Hugtakið hagræðing er eins og hráviði í opinberum skýrslum um sjávarútveg. Landkynningar og ráðuneytisbréf um fiskveiðar eru full af sjálfshóli og yfirlýsingum um hagkvæmni í sjávarútvegi sem þakka á kvótakerfinu. Þetta hugtak, hagræðing, er réttlæting kerfisins. Enda því næst allar breytingar á löggjöf fiskveiða undirorpnar hagkvæmni, hvort sem það eru heimildir til framsals kvóta eða veðsetningar. Þar sem allt snýst um þennan ás þá hlýtur að vera búið að skilgreina hann vel og staðfesta aukna hagkvæmni frá 1984 og sér í lagi frá 1990 þegar kvótaframsalið var heimilað.

Hvað segja opinberar hagskýrslur um sjávarútveginn? Þær sýna hækkun á afurðaverði og aukna framlegð, hagræðingu sameiningar og gjaldeyrissköpun. En lítt er hirt um síminnkandi slagkraft sjávarbyggðanna, atgervisflóttann og atvinnumissi þeirra sem brenna upp í hagræðingunni. Fyrir utan þá smán margra bæjarfélaga að skarta stjórum sem hallmæla veiðileyfagjaldi og frjálsum handfæraveiðum í sömu andrá. Þannig mismuna sveitarstjórnamenn einkaframtakinu og tryggja væntanlega eigin framgang í leiðinni.

Þegar rýnt er í hagskýrslur má sjá að það er fiskvinnslan en ekki útgerðin sem eykur framlegð í sjávarútvegi. Það er hún sem hefur tæknivæðst en útgerðin beint afrakstrinum annað. Með öðrum orðum hefur hagkvæmni ekki átt sér stað í útgerð síðustu 20 árin. Skipakosturinn úreldist og æ færri leita sér menntunar til sjós. Öll þjóðin hefur þannig látið ljúga að sér.

Fylgismenn óbreytts kvótakerfis vara mjög við breytingum á sjálfvirkri úthlutun á veiðikvótum og segja þær ógna undirstöðum atvinnuvegarins. Engu að síður hefur markaðstorg kvótakerfisins fært einstaka aðilum auð vegna sölu almannagæða einungis vegna þess að vera á réttum stað á réttum tíma. Þeir sem keyptu eru ígildi gríðarlegrar skuldsetningar en þeir sem fengu gjafabréfin stýra bæði framboði og eftirspurn. Þetta markaðstorg blómstrar fyrir þennan afmarkaða hóp undir árvissri ríkisvernd, aðrir þjóðfélagsþegnar fregna hagræðið af afspurn eða upplifa gegnum jólabónusa. Útgerðin búktalar fyrir heilu landshlutana. Svona happdrættisvinningar munu aldrei aftur verða í sögunni.

Stórútgerðirnar hafa hagnast gríðarlega á þeim 30 árum sem liðin eru frá gjafagjörningnum og einsýnt að valdasprotar þeirra eru djúptækir í íslensku samfélagi. Stórútgerðin er orðin að risa sem gín yfir Alþingi, sveitarstjórnum, öðrum hagsmunasamtökum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, starfsmönnum, fjölskyldum og fólki. Skuggi hennar er alls staðar svo varla sést til sólar. Nennum við þessu mikið lengur?




Skoðun

Sjá meira


×