Skoðun

Truflun II eða Sagan um ekki neitt

Guttormur Helgi Jóhannesson skrifar
Í grein minni Truflun, sem birtist í nóvemberlok 2011, gerði ég alvarlegar athugasemdir við umfjöllun Kastljóss um Gunnar Þ. Andersen, þá forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME); sagði þar m.a. í 6. málsgrein: „Eini tilgangur hennar virtist vera að grafa undan trúverðugleika FME og forstjóra þess – og reyna að ryðja honum úr vegi." Undirróðurinn gegn forstjóranum hélt áfram – 3 mánuðum síðar var brottrekstur hans staðreynd; svo mikill var atgangurinn að í dagrenningu 1. mars hélt Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður FME, að heimili Gunnars og afhenti honum uppsagnarbréfið, ef marka má fréttaflutninginn þann dag. Skömmu síðar birtist stjórnarformaðurinn í Kastljósi og harmaði m.a. hve persónulegar deilur hans við Gunnar urðu. Ekki fannst mér tilraun hans til að réttlæta brottreksturinn sannfærandi – það vantaði líka einlægni í harminn.

Daginn eftir fréttaflutning af ákæru gegn Gunnari og starfsmanni Landsbankans ritar ritstjóri Fréttablaðsins grein um málið og endurtekur margþvældan málflutning þeirra sem vildu bola Gunnari úr embætti; vandinn er sá að hann gleymir að nefna tvær álitsgerðir Andra Árnasonar lögmanns sem eru þó lykilskjöl – enn og aftur gleymast aðalatriðin. Andri, óháður matsmaður, komst – í tvígang – að sömu niðurstöðu, að Gunnar væri hæfur til að gegna starfi forstjóra FME. Ég veit ekki til þess að dómgreind Andra hafi verið dregin í efa. Sá sem telur brottrekstur Gunnars réttmætan hlýtur jafnframt að líta svo á að báðar álitsgerðir Andra (sú síðari frá því í nóv. 2011) séu ómarktæk plögg. Hyggst ritstjórinn sýna fram á það í næsta leiðara sínum?

„Málið snerist aldrei um nein rök eða upplýsingar, þaðan af síður um réttlæti. Engin boðleg rök hafa verið færð fyrir uppsögn Gunnars, engin ný gögn lögð á borðið." (Úr yfirlýsingu Skúla Bjarnasonar, þá lögmanns Gunnars, 1. mars sl.) Ég tek heilshugar undir þessi orð – þetta er kjarni málsins; frá upphafi til enda var málatilbúnaðurinn gegn forstjóranum í raun sagan eða fárið um ekki neitt – enda engin brottrekstrarsök fyrir hendi. Atburðarásin sem hófst skömmu eftir áramót var farsakennd, vitfirringin tók völdin – rétt eins og í aðdraganda bankahrunsins; lögreglan hefði með réttu átt að grípa inn í þessa lögleysu á Höfðatorgi – stöðva hana – úr því að ráðherra efnahagsmála gerði það ekki með því að leysa stjórnina upp. Hann hafði vald til þess.

Hernaður á Fróni hefur þá sérstöðu að hann er ekki háður með hefðbundnum stríðstólum heldur orðum og pappírum. Gagnaleki er mannanna verk og því aldrei tilgangslaus; gleymum því ei að í þessu máli beindist gagnalekinn að einum manni, ekki hópi manna eða félagi. Ljóst var að Kastljósþátturinn 17. nóv. 2011 byggði á trúnaðarskjölum sem lekið hafði verið í þáttinn og voru brot af þeim myndbirt, þar á meðal meira en áratugar gamlir lánasamningar úr Landsbankanum. Hvers vegna hóf lögreglan eða saksóknari ekki tafarlausa rannsókn á jafnalvarlegum trúnaðargagnaleka sem nýttur var í annarlegum tilgangi? Hverjir stóðu fyrir honum, á hvaða tímabili fór hann fram o.s.frv.? Meðan málið er ekki rannsakað upplýsist það vitaskuld ekki, engin svör fást við knýjandi spurningum.

Þegar ljóst varð, síðari hluta febrúar, að stjórn FME ætlaði sér að hrekja Gunnar burt hvað sem það kostaði hófst hin magnaða gagnsókn forstjórans sem lifa mun á ódáinslendum hugans og minnti á fátt fremur en lokakafla frægs lags með hljómsveitinni The Who. Sjálfsögð krafa hans um að stjórn FME hætti að haga sér eins og véfréttin illræmda heldur legði fram vitrænar skýringar á uppsagnarhótunum var hunsuð. Hver skyldi refsiramminn fyrir ofsóknir vera?

Á endanum snerist málið um sannfæringu hins ofsótta forstjóra andspænis valdníðslu stjórnarinnar og þeim hagsmunaöflum sem vildu losna við hann. Hann fylgdi sannfæringu sinni og réttlætiskennd út í æsar – lokarimman við stjórn FME tók af öll tvímæli um að hann lét ekki fjárhagslega hagsmuni ráða för heldur stóð – og féll – með sannfæringu sinni; allar heimsins trilljónir gátu ekki keypt hana af honum. Enn á ný sannast þau orð Sigurðar Nordal, að sigurlaun lífsins séu aldrei hvíld, heldur kostur á að halda vörninni áfram. Þau spakmæli voru föður mínum heitnum, Jóhannesi Helga rithöfundi (1926–2001), oft hugleikin og ekki að ófyrirsynju. Hann og Gunnar eiga það sammerkt, þótt ekki hafi þeir þekkst, að hafa neitað að láta illskeytt öfl beygja sig – þeir kysstu ekki vöndinn… Það er bæði þakkar- og virðingarvert.

Eftir stendur manneskjuleg og einlæg barátta Gunnars fyrir starfi sínu, að ógleymdum hnitmiðuðum yfirlýsingum, ræðum og viðtölum sem bera vott um mikla þekkingu hans og greind, leiftrandi innsæi – og ekki síst feikilegt vald á íslenskri tungu. Allt mikilsverðar samtímaheimildir sem veita m.a. innsýn í það sem úrskeiðis fór í íslensku samfélagi og þær lagfæringar sem brýnastar eru.

Lokaþáttur Gunnars sögu Andersen er allur eftir, sögulok óráðin; nú er vettvangurinn Héraðsdómur Reykjavíkur þar sem skylmingar andans halda áfram. Mér segir svo hugur að í vændum sé eitt merkilegasta dómsmál síðari tíma hér á hjara heims. Kannski verðum við vitni að hinstu vörn – og sókn – hins mikilhæfa rannsóknarmanns sem hófst handa við að siðbæta íslenskt fjármálakerfi.

Ég ber fullt traust til Gunnars Andersen; hugur minn og margra annarra er hjá honum í baráttunni fyrir réttlæti. Ekkert fær mætum manni grandað.




Skoðun

Sjá meira


×