Handbolti

Ramune með flensu | Dagný sneri sig á ökkla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ramune í leik með Haukum 2010.
Ramune í leik með Haukum 2010. Mynd/Anton
Ramune Pekarskyte og Dagný Skúladóttir hvíldu þegar íslenska kvennalandsliðið í handknattleik lagði Tékka í síðari æfingaleik þjóðanna í Tékklandi í gær.

Ramune, sem skoraði tvö mörk í fyrri leiknum gegn Tékkum á föstudaginn, er með flensu og lá uppi á hóteli á meðan á leik stóð.

„Hún er búin að vera í einangrun en fór á pensilínkúr í gær og getur vel verið að hún geti aðeins verið með í dag. Við sjáum til," sagði Ágúst Jóhannsson landsliðsþjálfari í samtali við Vísi í dag.

Íslenska liðið er komið til Serbíu en liðið mætir heimakonum í æfingaleik í kvöld. Leikurinn verður í óformlegra lagi og líkur á því að leiktíminn verði styttri en gengur.

„Leikurinn er í raun æfing. Bara aðeins til að hreyfa mannskapinn," sagði Ágúst sem vonast til þess að Dagný Skúladóttir verði klár í slaginn þegar Ísland mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik liðsins á þriðjudag.

Dagný sneri sig á ökkla í tapinu gegn Tékkum á föstudagskvöld og hefur verið í umönnum sjúkraþjálfara liðsins síðan.

„Samkvæmt sjúkraþjálfurunum verður hún klár á þriðjudaginn. Hún á að byrja að æfa á morgun þegar við æfum í keppnishöllinni. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hún verði klár á þriðjudaginn. Við stefnum á að hún verði klár þá," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×