Handbolti

Hrafnhildur: Það var virkilega erfitt að vera til í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, átti eins og fleiri í liðinu erfitt með að sofna eftir skellinn á móti Svartfjallalandi í gær. Stelpurnar ætla að koma sterkar til baka á móti Rúmeníu í kvöld.

„Staðan er nokkuð góð á liðinu. Það var skelfilegt að vera til í gærkvöldi og það var erfitt að sofna. Ég er þreytt núna en við fáum góðan tíma til að leggja okkur og hlaða batterín," sagði Hrafnhildur.

„Við erum klárar í næsta verkefni og tilbúnar að gera betur. Það voru gríðarlega mikil vonbrigði að þurfa að labba útaf vellinum í gær eftir svona leik. Það er erfitt að tapa þegar bara tveir leikmenn skila sínu en restin varla með. Það var virkilega erfitt að vera til í gærkvöldi," sagði Hrafnhildur en framundan er leikur við Rúmeníu í kvöld.

„Rúmenarnir eru með gríðalega öflugt lið en þær eru rokkandi og eiga það til að detta niður á mjög lágt plan. Við þurfum að sjá til þess að þær geri það í kvöld því það erum við sem getum gert þær lélegar," sagði Hrafnhildur en Rúmenía missti niður fimm marka forskot á lokakafla síns leiks í gær og gerði fyrir vikið 21-21 jafntefli við Rússland.

„Þær spiluðu rosalega hraðann leik á móti Rússunum í gær og það hlýtur að vera meiri þreyta í þeim heldur en okkur miðað við hraða leikjanna í gær. Við verðum að spila okkar vörn, keyra meira en við gerðum í gær og sjá til þess að þær verði lélegar," sagði Hrafnhildur en það má sjá allt viðtalið við Hrafnhildi með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×