Handbolti

Svartfjallaland ekki í miklum vandræðum með Rússland

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Mynd/Stefán
Svartfjallaland er með fullt hús á toppi okkar riðils eftir þriggja marka sigur á Rússlandi, 30-27, í fyrri leik dagsins í Vrsac á EM kvenna í handbolta í Serbíu. Svartfjallaland hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína sannfærandi en liðið vann Ísland 26-16 í gær.

Svartfjallaland náði mest tíu marka forystu um miðjan seinni hálfleik en Rússum tókst að laga stöðuna með því að vinna síðustu fimmtán mínútur leiksins 9-2.

Jovanka Radicevic spilaði bara fyrri hálfleikinn og var markahæst hjá Svartfjallalandi með sex mörk. Stóskyttan Katarina Bulatovic skoraði einnig sex mörk en reyndar úr talsvert fleiri skotum.

Rússar skoruðu fyrsta markið í leiknum en Svartfjallaland tók síðan frumkvæðið, komst í 7-4 og 10-7 áður en Rússum tókst að minnka muninn í 14-13 þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Svartfjalland náði síðan frábærum 6-1 spretti í lok hálfeiksins sem skilaði liðinu sex marka forystu í hálfleik, 20-14. Hornamaðurinn Jovanka Radicevic var komin með sex mörk í hálfleik.

Svartfellingar skoruðu fimm af sjö fyrstu mörkum seinni hálfleiks og voru allt í einu komnar í 25-16 eftir að hafa unnið fimmtán mínútna kafla 11-3. Svartfjallaland komst tíu mörkum yfir, 28-18, þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir en Rússar náðu þá góðum kafla og minnkuðu muninn í 28-23.

Sigur Svartfjallalands var þó aldrei í verulegri hættu þótt að Rússum hafi tekist að minnka muninn niður í þrjú mörk í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×