Viðskipti innlent

Már: Gefin í skyn meiri vá en tilefni er til

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson á fundi Viðskiptaráðs á Hilton Nordica í morgun.
Már Guðmundsson á fundi Viðskiptaráðs á Hilton Nordica í morgun. Vísir / Sigurjón
„Ég veit ekki hvort við semjum við þessi þrotabú, ég held við munum bara segja þeim hvernig þetta á að vera," sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs á Nordica hóteli í morgun varðandi nauðasamninga þrotabúa Glitnis og Kaupþings og áhrif þeirra á fjármálastöðugleika í landinu.

Hann sagði í ræðu sinni fyrr í morgun að gefin væri í skyn meiri vá vegna þessara nauðasamninga en tilefni er til.

„Umræðan að undanförnu hefur að sumu leyti verið gagnleg þar sem hún hefur stuðlað að mun meiri skilningi á greiðslujafnaðarvandamáli Íslands og því verkefni sem Seðlabankinn stendur frammi fyrir varðandi framkvæmd haftanna með tilliti til þrotabúa föllnu bankanna. En hún hefur um leið verið á köflum ruglingsleg og líklega gefið í skyn mun meiri vá en í raun vofir yfir," sagði Már í ræðu sinni, en hann var þar að að vísa til umfjöllunar um áhrif nauðasamninga þrotabúa Glitnis og Kaupþings á á fjármálastöðugleika í landinu.

Í hnotskurn snýst málið um það að sérfræðingar á fjármálamarkaði hafa af því miklar áhyggjur að útgreiðslur í erlendri mynt til kröfuhafa Kaupþings og Glitnis geti ógnað fjármálastöðugleika og haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar og lífskjörin í landinu. Saman eiga þessir bankar jafnvirði um 750 milljarða króna í erlendri mynt í lausu fé, en það jafngildir hálfri landsframleiðslu Íslands. Taugatitringurinn er það mikill vegna málsins að þeir sáu ástæðu til að funda sérstaklega með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í síðustu viku til að gera honum grein fyrir stöðunni.

„Í stuttu máli er staðan sú að íslenska ríkið ræður vel við skuldir sínar og á ekki við skuldakreppu að stríða. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins verður viðráðanleg eftir að þrotabúin hafa verið gerð upp og ef horft er framhjá Actavis sem skekkir myndina varðandi undirliggjandi stöðu skuldastöðu þjóðarbúsins. Það er áætlunarverk að reikna út hver þessi staða er og Seðlabankinn mun halda áfram á komandi tíð að bæta mat sitt á því," sagði Már.

Ísland á við greiðslujafnaðarvanda að stríða


Már sagði að vandamál Íslands væri annað. „Það felst í því að innlendir aðilar aðrir en ríkissjóður og örfáir aðrir eins og t.d. Landsvirkjun hafa aðgang að erlendu lánsfjármagni til framkvæmda og endurfjármögnunar. Það felst í því að sumir aðilar þurfa því að greiða niður sínar erlendu skuldir miklu hraðar en æskilegt er sem setur þrýsting á íslensku krónuna. Það felst í því að erlendir aðilar eiga miklar lausar krónueignir sem myndu setja mikinn þrýsting á íslensku krónuna ef það flæddi allt út í einu. Ísland á því við greiðslujafnaðarvandamál að stríða. Það er einmitt vandamálið sem fjármagnshöftunum er ætlað að taka á," sagði Már.

Már fór ekki yfir það í ræðu sinni hvernig Seðlabankinn myndi bregðast við fyrirhuguðum nauðasamningum Kaupþings og Glitnis, þ.e hvaða leiðir yrðu farnar í því sambandi.

„Það sem nú liggur fyrir er að finna leiðir til að úrlausn þrotabúana hafi ekki neikvæð áhrif og helst jákvæð áhrif á greiðslujafnaðarvandann og fjármálastöðugleilka á Íslandi. Þær eru til (..) en það bíður betri tíma að útlista þær af meiri nákvæmni."

Már fékk spurningu úr sal um málið að lokinni ræðu sinni, þ.e hvort Seðlabankinn myndi semja við þessi þrotabú til að tryggja fjármálastöðugleika og afstýra mögulegum neikvæðum áhrifum á gengi krónunnar, en Már sagði enga þörf á því.

„Ég veit ekki hvort við semjum við þessi þrotabú, ég held við munum bara segja þeim hvernig þetta á að vera," sagði Már. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×