Viðskipti innlent

Viðskiptaþvinganir á Ísland andstæðar lögum

BBI skrifar
Friðrik J. Arngrímsson, formaður LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, formaður LÍÚ. Mynd/Vilhelm
Ef Evrópusambandið nýtir heimildir til að beita Íslend refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar fara þeir á svig við alþjóðalög. Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, formaður LÍÚ.

Evrópuþingið samþykkti nýverið almennar reglur um sérstakar aðgerðir gegn öðrum löndum til verndar fiskistofnum sambandsins. Reglunum er í orði kveðnu ekki beint gegn sérstökum löndum, þær fela í sér almennar heimildir til að beita óábyrg lönd aðgerðum. Friðrik telur hins vegar ekkert launungarmál að það er makríldeilan við Íslendinga og Færeyinga sem rekur sambandið til að smíða regluverkið.

Reglurnar fela í sér heimild til að beita viðskiptaþvingunum vegna ofveiða annarra landa. Annars vegar getur Evrópusambandið sett verslunarbann á óábyrg ríki, þ.e. ríkin gætu ekki selt afla sinn til sambandsins. Hins vegar getur sambandið beitt löndunarbanni. Þar með gætu skip viðkomandi lands ekki notað hafnir sambandsins til að umskipa afla eða landa honum.

Í reglunum kemur skýrt fram að viðskiptaþvinganirnar geta aðeins tekið til þeirra fiskistofna sem Evrópusambandið og viðkomandi land eiga sameiginleg. Því getur makríldeilan t.d. ekki leitt til þess að Evrópusambandið banni viðskipti Íslendinga með allan fisk.

Makríll.
Evrópuþingið samþykkti reglurnar nýverið. Evrópuþingið er hins vegar aðeins ein stofnun Evrópusambandsins og reglurnar hafa því enn ekki öðlast gildi. Tillögur þingsins eiga eftir að koma til umfjöllunar hjá ráðherraráðinu. Þaðan verða þær líklega ekki afgreiddar fyrr en í október.

„Þannig að það er langt í að einhverjum þvingunum verði beitt gegn Íslendingum," segir Friðrik og bendir á að þessar almennu reglur feli aðeins í sér heimild til að beita þvingunum. Hann telur að ef Evrópusambandið ákveður að nota umræddar heimildir gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar gerist þeir brotlegir við alþjóðalög.

„Fiskveiðar Íslendinga hvíla á sama grunni og fiskveiðar Evrópusambandsins. Þær helgast af sömu þjóðaréttarreglum," segir hann. Evrópusambandið getur því ekki ákveðið að Íslendingar megi ekki veiðar úr sameiginlegum stofnum. Þar með gerist það brotlegt við alþjóðlega fiskveiðisamninga og samninga eins og Gatt-sáttmálann og EES-samninginn.


Tengdar fréttir

Evrópuþingið samþykkir viðskiptaþvinganir gegn Íslendingum

Evrópuþingið samþykkti í dag að beita Íslendinga og Færeyinga viðskiptaþvingunum vegna makríldeilunnar, eftir því sem fram kemur í fréttum BBC. Íslendingar og Færeyingar hafa verið gagnrýndir harðlega á síðustu dögum fyrir of miklar veiðar úr makrílstofninum og er talið að þær séu ósjálfbærar. Viðskiptaþvinganirnar felast í því að útflutningur á makríl og öðrum fiskafurðum verður bannaður.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×