Viðskipti innlent

Evrópuþingið samþykkir viðskiptaþvinganir gegn Íslendingum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Evrópuþingið samþykkti í dag að beita Íslendinga og Færeyinga viðskiptaþvingunum vegna makríldeilunnar, eftir því sem fram kemur í fréttum BBC. Íslendingar og Færeyingar hafa verið gagnrýndir harðlega á síðustu dögum fyrir of miklar veiðar úr makrílstofninum og er talið að þær séu ósjálfbærar.

Evrópuþingið er stofnun innan Evrópusambandsins. Þó refsiaðgerðirnar hafi verið samþykktar á Evrópuþinginu er enn aðeins um tillögur að ræða. Því er ekki þar með sagt að þeim verði beitt gegn Íslendingum. Tillögurnar eiga eftir að fara fyrir ráðherraráðið sem þá þarf að samþykkja þær. Það yrði að öllum líkindum ekki gert fyrr en í október.

Eins og fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur greint frá samþykkti sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins fyrr á þessu ári tilskipun um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar veiðar úr sameiginlegum stofnum sem deilt er um, eins og til dæmis makríl, en tilskipunin felur ekki aðeins í sér löndurbann á íslensk skip heldur einnig viðskiptaþvinganir eins og takmarkanir á sölu fiskiafurða.

Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur einnig sagt að Norðmenn myndu einnig grípa til ráðstafana. Hún hefur hins vegar ekki viljað gefa upp hvers kyns aðgerðir það eru.

Hér má sjá frétt BBC um málið
.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×