Innlent

Fyrsta myndin af Crowe í hlutverki Nóa

Bandaríska kvikmyndaverið Paramount Pictures hefur birt fyrstu myndina af Russell Crowe í hlutverki Nóa. Þó svo að fátt annað en veðrað andlit stórleikarans sjáist á myndinni hefur hún vakið mikla athygli.

Biblíusagan af Nóa er mikið ástríðuverkefni leikstjórans Darren Aronofsky. Um árabil hefur hann sóst eftir fjármagni til að framleiða kvikmyndina. Í kjölfar mikillar velgengni leikstjórans ákváðu framleiðendur í Hollywood að leggjast í verkefnið.

Ljóst er að Nói verður ekki í anda fyrri kvikmynda sem byggja á sögum Biblíunnar, líkt og The Ten Commandments (Cecil B. DeMille, 1956), The Passion of the Christ (Mel Gibson, 2004) og The Last Temptation of Christ (Martin Scorsese, 1988).

Kvikmynd Aronofskys mun birta sögu Nóa í nýju ljósi. Líklegt þykir að leikstjórinn og handritshöfundur myndarinnar, John Logan, muni taka mið af eldri frásögnum af flóðinu mikla.

Fyrir nokkrum árum gaf leikstjórinn út myndasögu sem kvikmyndin er sögð byggja á. Hægt er að sjá brot úr henni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×