Elena Lashmanova, tvítug rússnesk stelpa, tryggði sér sigur í 20 kílómetra göngu kvenna á Ólympíuleikunum í London í dag þegar hún kom fyrst í mark á nýju heimsmeti. Lashmanova kom í mark á einum klukkutíma, 25 mínútum og 2 sekúndum en hún bætti þar með eins árs heimsmet löndu sinnar Veru Sokolovu um sex sekúndur.
Elena Lashmanova hafði betur í baráttunni við löndu sína Olga Kaniskina en Olga átti titil að verja síðan á Ólympíuleikunum í Peking. Kaniskina var með 43 sekúndna forystu eftir 12 kílómetra en Lashmanova átti frábæran endasprett og tryggði sér sigurinn í lokin.
Kaniskina er þrefaldur heimsmeistari en er hugsanlega búin að finna arftaka sinn í Elenu Lashmanova sem er sjö árum yngri en hún. Qieyang Shenjie frá Kína vann síðan bronsið.
