Viðskipti innlent

Hermann fær fyrsta almennilega sumarfríið í 18 ár

BBI skrifar
Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson Mynd/Stefán Karlsson
Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1, vissi ekki að til stæði að segja honum upp. Hann fékk uppsagnabréf í morgun. „Það leið ekkert yfir mig," segir hann. „Þetta er bara eitthvað sem allir forstjórar þurfa að búa við. Það eru nýlega búnar að eiga sér stað eignabreytingar í félaginu og þá er þetta alltaf hlutur sem getur fylgt í kjölfarið."

Hermann fullyrðir að stjórnendur N1 hafi ekki verið ósáttir við störf hans. „Félagið mun sennilega skila methagnaði bæði í 6 mánaða uppgjöri og 12 mánaða uppgjöri á þessu ári," segir hann og gæti ekki verið ánægðari með hvernig hann skilur við félagið.

Fyrir um þrjátíu dögum var gengið frá kaupum Framtakssjóðsins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna á stórum hluta félagsins af Arion banka. Þar með komu nýir eignarhaldsaðilar inn í félagið og þeim fylgja breytingar. Við starfi Hermanns tekur Eggert Benedikt Guðmundsson sem er fráfarandi formaður útgerðarfélagsins HB Granda. Hermann er mjög ánægður með eftirmann sinn. „Þetta er úrvalsmaður," segir hann og telur félagið mjög heppið með mann.

Auk forstjóraskiptanna eru fyrirhugaðar breytingar á stjórn félagsins. Á morgun verður haldinn hluthafafundur þar sem breytingar á stjórn verða ræddar. Að sögn Margrétar Guðmundsdóttur, stjórnarmanns félagsins, mun stjórnarformaðurinn Jóhann Hjartarson hætta og Helgi Magnússon, frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna, koma nýr inn.

Hermann segir að nú taki við langt og gott sumarfrí í fyrsta sinn í 18 ár. „Ég er mjög kátur með það. Það er ekki hægt að vera á betri stað í heiminum til að taka frí."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×