Viðskipti innlent

Lánshæfismat Íslands stendur í stað meðan önnur ríki lækka

BBI skrifar
Á meðan lánshæfismat margra ríkja Evrópu fer hríðlækkandi stendur lánshæfismat Íslands í stað hjá matsfyrirtækjunum. Sérfræðingur Moody's sagði í viðtali við Reuters í síðustu viku að breytingar á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs væru ekki í kortunum.

Síðasta breyting á lánshæfismati ríkissjóðs átti sér stað í febrúar síðastliðnum þegar Fitch Ratings hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs lítillega.

Lánshæfismat margra ríkja í Evrópu fer hins vegar versnandi og er þá sér í lagi átt við ríki á evrusvæðinu. Fimm ríki hafa nú óskað eftir neyðarláni frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það eru Grikkland, Írland, Portúgal, Kýpur og Spánn. Í kjölfarið hefur lánshæfismat þessara ríkja eðlilega tekið breytingum.

Rétt er að halda því til haga að þrátt fyrir að matsfyrirtækin hafi lækkað lánshæfiseinkunnir flestra evruríkja á sama tíma og lánshæfismat Íslands stendur í stað þá hafa fá ríki verri einkunn en Ísland. Þau eru í raun aðeins þrjú, þ.e. Grikkland, Portúgal og Kýpur. Spánn og Írland hafa nokkuð svipað lánshæfismat og Íslands.

Um þetta er fjallað í morgunkorni Íslandsbanka í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×