Innlent

Bændur stigu gleðidans í rigningu

BBI skrifar
Eftir mikla þurrka glöddust bændur á Vestfjörðum í gær þegar rigndi í fyrsta sinn í langan tíma. Mynd úr safni.
Eftir mikla þurrka glöddust bændur á Vestfjörðum í gær þegar rigndi í fyrsta sinn í langan tíma. Mynd úr safni. Mynd/Vilhelm
Bændur í Valþórsdal stigu gleðidans og fóru með ástaróð til rigningarinnar í gær þegar rigndi í fyrsta sinn í sex vikur á svæðinu.

Guðmundur Steinar Björgmundsson, bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal, segir að þó meira þurfi til að bleyta túnin hafi munað um þetta. „Þetta er alveg óvenjulegt veðurlag," segir Guðmundur, en víða eru tún brunnin á svæðinu eftir júnímánuð sem reyndist sá þurrasti frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.

Bjarni Ásgeirsson bóndi á Ásgarði í Dölum segir að ekkert fari milli mála að síðastliðinn mánuður hafi verið þurrasti júní síðan mælingar hófust á svæðinu. „Þetta er sennilega þurrasti mánuður yfir höfuð síðan við fórum að mæla hér," segir Bjarni. Hann segir að þó uppskeran verði líklega býsna léleg sé hann ekki farinn að örvænta. „Þetta er í lagi, sérstaklega hjá þeim sem gátu borið á tún fyrir Hvítasunnu," segir Bjarni. Ástandið sé þó mjög misjafnt eftir því hvort menn séu með raklend tún eða harðlend.

Bjarni segir að þau á Ásgarði hafi ekki liðið skort á drykkjarvatni. „Við erum tengd við vatnslögnina til Búðardals," segi hann. Hins vegar hafi vatnsskortur verið algengur undanfarin sumur á ákveðnum bæjum og það sé líklega svipað í ár, kannski verra.

Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, segir ástandið í Borgarfirði ekki jafnalvarlegt og í Dölum. Í Borgarfirði hafi komið síðdegisskúrar stökum sinnum en í Dölum hefur ekki komið dropi úr lofti. Gunnar segir ástandið ekki beinlínis hræðilegt en uppskera í Dölum verði að öllum líkindum minni en gengur og gerist.

Þegar miklir og langvarandi þurrkar verða reyna plöntur að hraða þroska. „Það þýðir að fóðurgildi uppskerunnar minnkar með auknum þroska," segir Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum. Bændur á þurrkasvæðum, sem hafa verið að slá á réttum tíma, við æskilegt þroskastig, fá töluvert minni uppskeru vegna þessa. Eina leiðin er þá að bera aftur á túnin og reyna að ná öðrum slætti.

„Ef það fer hins vegar að rigna núna verður gróðurinn úr sér sprottinn á stuttum tíma," segir Gunnar en í því felst að næringargildi gróðursins minnkar. Á ákveðnum tímapunkti er næringargildið í grösum hæst og á þeim tíma er rétt að heyja. Ef of langur tími líður frá þessum tíma fer grasið að mynda punt með þeim afleiðingum að næringargildið snarminnkar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×