Erlent

Hart tekið á reykjandi Dönum

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Þeir sem brjóta ný og hert lög um reykingar í Danmörku geta búist við að fá nokkur hundruð þúsund króna sekt.

Hert löggjöf um reykingar gekk í gildi í Danmörku um helgina. Héðan í frá verður kennurum og öðru starfsmönnum danskra skóla bannað að kveikja sér í sígarettu á vinnutíma, inni í skólabyggingu sem og úti á skólalóð. Þá verður einnig óheimilt að reykja á öðrum vinnustöðum í landinu, jafnvel þó svo að einn sé þar að störfum.

Dagforeldrar mega ekki reykja á heimilum sínum þegar börn eru þar í gæslu en samkvæmt lögunum er þeim frjálst að draga fram sígaretturnar að loknum vinnudegi. Ekki hefur verið tekið fyrir reykingar í atvinnubifreiðum ef ökumaður er einn á ferð. Þessi liður var nokkuð umdeildur en nokkrir þingmenn vildu að tekið yrði alfarið fyrir tóbaksnotkun í bifreiðum sem notaðar eru á vinnutíma óháð fjölda starfsmanna.

Ströng viðurlög eru við brotum á nýju löggjöfinni. Fyrsta brot getur leitt til sektar upp á um hundrað og tíuþúsund krónur, annað brot upp á um tvöhundruð og tuttugu þúsund og það verður reykingarmönnum ansi dýrkeypt að brjóta af sér í þrígang þar sem sektin fyrir þriðja brot hljóðar upp á um fjögurhundruð og fjörutíuþúsund íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×