Viðskipti innlent

Iceland Express tapaði tæpum þremur milljörðum króna

Iceland Express tapaði um 2,7 milljörðum króna í fyrra, samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Félagið hefur ekki birt ársreikning sinn fyrir árið 2011. Markaðurinn greindi frá því í mars að Eignarhaldsfélagið Fengur, eigandi Iceland Express, hefði afskrifað hlutafé í Iceland Express upp á rúmlega tvo milljarða króna í lok síðasta árs.

Fengur skilaði ársreikningi sínum fyrir árið 2010 þann 28. mars síðastliðinn. Einu eignir þess félags samkvæmt honum voru Iceland Express og breska flugfélagið Astraeus, sem fór í slitameðferð í fyrrahaust.

Vegna hlutdeildar í afkomu dótturfélaga sinna tapaði Fengur 1,5 milljörðum króna á árinu 2010 og eignarhlutir félagsins í þeim rýrnuðu úr því að vera 3,3 milljarða króna virði í árslok 2009 í að vera 486 milljóna króna virði í lok þess árs.

Í áritun endurskoðanda Fengs er vakin athygli á, án þess að gera fyrirvara við, að atburðir sem áttu sér stað eftir reikningsskil hafi valdið „því að rekstrarhæfi félagsins sé brostið nema til komi nýtt eigið fé eða skuldum verði breytt í eigið fé".

Samkvæmt upplýsingum Markaðarins eru allar skuldir Fengs við Nupur Holding SA í Lúxemborg, sem á allt hlutafé þess í gegnum dótturfélagið Academy S.a.r.l. Eigandi Nupur Holding er Pálmi Haraldsson.

- þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×