Viðskipti innlent

Krónan um 5 til 20 prósentum undir jafnvægisraungengi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að krónan sé nú um 5-20% undir jafnvægisraungengi. Þetta merkir að litið til lengri tíma gæti raungengi krónunnar hækkað, þar sem hún er vanmetin, og þá annað hvort eða hvorutveggja með því að nafngengi krónu hækkar og/eða að verðbólgan og launahækkanir verði meiri en í helstu viðskiptalöndunum. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.

AGS bendir á að litið til skemmri tíma þurfi að taka tillit til þeirra áhrifa sem afnám gjaldeyrishafta gæti haft á gengisþróunina. Að mati sjóðsins er líklegt er að það auki þrýsting til lækkunar á gengi krónunnar í bráð, ekki síst í ljósi þess hvað erlendir og innlendir fjárfestar hafa lengi verið fastir innan haftanna. Þessu til viðbótar eru innlendir aðilar með takmarkaðar eða engar erlendar tekjur að greiða niður erlendar skuldir og gæti það einnig aukið þrýsting til lækkunar á krónunni til skemmri tíma. AGS er þannig ekkert sérstaklega bjartsýnn á þróun krónunnar næsta kastið þó svo að þeir telji að hún sé undirverðlögð. Kemur þetta fram í skýrslu sjóðsins um stöðu íslenska hagkerfisins sem sjóðurinn birti í gær.

AGS bendir á að veik staða krónunnar endurspeglast í sterkri samkeppnisstöðu sögulega séð metið út frá stöðu raungengisins. Raungengið lækkaði um 50% við hrunið og er það enn lágt sögulega séð þó svo að það hafi að hluta komið til baka vegna meiri verðbólgu hér en í helstu viðskiptalöndunum og vegna þess að launahækkanir hafa verið umtalsvert meiri en í nálægum löndum. Bendir AGS á að lágt raungengi hafi farið saman með miklum bata í utanríkisviðskiptum þar sem mikill halli á vöru- og þjónustujöfnuði hafi snúist í afgang.

AGS segir að það sé mikilvæg trygging gegn óhóflegu flökti í krónunni að sveigjanleikinn sé talsverður í áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta. Sveigjaleiki þessi gefur að mati sjóðsins svigrúm til að hægja á afnámi þeirra ef skilyrðin séu ekki hagstæð. Segir sjóðurinn að þörf sé á að fara hægt og varlega í afrám gjaldeyrishaftanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×