Viðskipti innlent

Björgólfur Thor gæti hagnast um tugi milljarða á sölu Actavis

Fari svo að bandaríska lyfjafyrirtækið Watson kaupi Actavis af Deutsche Bank má búast við að Björgólfur Thor Björgólfsson fái tugi milljarða króna í sinn hlut.

Reuters hefur það eftir heimildum að Watson ætli sér að bjóða 5 til 5,5 milljarð evra fyrir Actavis eða allt að rúmlega 900 milljarða króna. Ef Watson borgar þetta verð mun Björgólfur Thor Björgólfsson hafa ástæðu til að brosa breitt.

Þegar Deutsche Bank yfirtók Actavis haustið 2010 fékk Björgólfur Thor að halda hlut í fyrirtækinu og raunar manni í stjórn þess. Síðan átti hann að fá hlut í framtíðarvirði Actavis hvort sem fyrirtækið yrði selt eða skráð á markað. Ekki hefur verið gefið upp opinberlega hve stóran hlut Björgólfur Thor fékk við yfirtöku bankans en miðað við stjórnarmanninn má búast við að það hafi verið á bilinu 10 til 20%.

Actavis skuldaði Deutsche Bank yfir 4 milljarða evra þegar bankinn yfirtók fyrirtækið. Björgólfur Thor á sennilega rétt á 10 til 20% af söluverðinu umfram þá skuld. Það gera 150 til 300 milljónir evra eða á bilinu 25 til 50 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×