Viðskipti innlent

Allt fyrirtækið í bið vegna rammaáætlunar

Guðmundur Valsson
Guðmundur Valsson
Ráðamenn Suðurorku eru sigldir í strand með undirbúning Búlandsvirkjunar í Skaftá sökum þess að rammaáætlun er föst í ágreiningi innan stjórnarflokkanna.

Eftir að fallið var frá hugmyndum um að beisla orku Skaftár með því að veita ánni í gegnum Langasjó hefur svokölluð Búlandsvirkjun orðið ofaná og búið að samþykkja hana inn á aðalskipulag Skaftárhrepps, sem umhverfisráðherra hefur staðfest.

Fyrirtækið Suðurorka, sem er í eigu HS Orku og Íslenskrar orkuvirkjunar, hefur í þrjú ár undirbúið þarna 150 megavatta virkjun. Guðmundur Valsson, framkvæmdastjóri Suðurorku, segir í viðtali við Stöð 2 að búið sé að leggja hundruð milljóna króna í rannsóknir á þessum virkjunarkosti og framundan sé að leggja hundrað milljónir króna í mat á umhverfisáhrifum. Rammaáætlun stoppi hins vegar allt.

Búlandsvirkjun yrði rétt ofan efstu bæja í Skaftártungu, neðan Hólaskjóls. Skaftá yrði veitt um göng í nýtt lón á Þorvaldsaurum við Réttarfell, þar sem stöðvarhúsið yrði, og hluta af rennsli Tungufljóts yrði náð með tveimur stíflum, en vatninu síðan skilað aftur um göng til Skaftár á móts við bæinn Búland.

Búlandsvirkjun hafnaði í biðflokki rammáætlunar sem Suðurorkumenn segjast ósáttir við enda sé hún mikið rannsökuð. Guðmundur Valsson segir að 27 sérfræðiskýrslur liggi fyrir um virkjunina og hún hafi fengið fína einkunn í fyrsta áfanga rammaáætlunar.

Suðurorka er að því leyti ólík öðrum orkufyrirtækjum að öll starfsemin snýr að Búlandsvirkjun.

„Við erum bara með einn kost. Ef hann er í bið er allt fyrirtækið í bið," segir framkvæmdastjóri Suðurorku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×