Viðskipti innlent

Faxaflóahafnir skiluðu 250 milljóna hagnaði í fyrra

Afkoma Faxaflóahafna í fyrra var rúmlega 100 milljónum kr. betri en ráð var gert fyrir í fjárhagsáætlun. Hagnaður ársins nam tæplega 250 milljónum kr. sem er 21 milljón kr. lakari niðurstaðan en árið á undan.

Á vefsíðu Faxaflóahafna segir að niðurstaðan sé viðunandi, en tekjur voru nokkuð umfram áætlun en rekstrarútgjöld nánast samkvæmt áætlun. Þá var þróun fjármagnsliða nærri áætlun þrátt fyrir gengisflökt og verðbólgu umfram spár. Rekstrarhagnaður varð því meiri en áætlað hafði verið.

Rekstrartekjur Faxaflóahafna sf. árið 2011 voru tæplega 2,5 milljarðar kr. sem er 5,7% hækkun tekna á milli ára. Þar vegur þyngst aukning aflagjalda.

Rekstrargjöld Faxaflóahafna sf. árið 2011 voru tæplega 2,1 milljarður kr. og hækka að krónutölu á milli ára um 83,6 mkr. eða um 4,1%.

Að teknu tilliti til fjármunaliða er rekstrarhagnaður ársins 2011 alls 248.7 milljónum kr. sem er 21,1 milljónum kr. lakari niðurstaða en árið 2010. Niðurstaðan er hins vegar 102,3 milljónum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×