Viðskipti innlent

Reikna með að gengisfall krónunnar haldi áfram næstu árin

Ekkert lát er á gengisfalli íslensku krónunnar og nú reiknar greining Arion banka með því að gengisfallið haldi áfram næstu árin.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að nú hafi gengi krónunnar fallið um rúm 5% frá áramótum. Ástæðan er einkum árstíðarbundnar sveiflur í innstreymi gjaldeyris, áframhaldandi endurgreiðslur erlendra lána fyrirtækja og sveitarfélaga og versnandi viðskiptakjör.

Að mati greiningarinnar mun þróunin vera á svipaða vegu, þ.e. í veikingarátt, á næstu árum þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka tímabundna styrkingu gengisins yfir sumarmánuðina. Ástæðan er fyrst og fremst sú að á næstu árum þarf þjóðin að standa straum af háum fjárhæðum til að endurgreiða erlend lán, en ekki er í augsýn endurfjármögnun, nema e.t.v. að hluta til.

Seðlabankinn mun ekki geta stutt við krónuna þar sem gjaldeyrisforði bankans er allur tekinn að láni. Ef það verði reynt muni það aðeins fresta gengisfalli krónunnar tímabundið og tefla fjármögnun forðans í hættu, að mati greiningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×