Lífið

Boladagurinn í dag - Íslendingar hrella stjörnur á Twitter

Boði Logason skrifar
Henry Birgir Gunnarsson, blaðamaður, er hérna í einum góðum bol.
Henry Birgir Gunnarsson, blaðamaður, er hérna í einum góðum bol. mynd úr einkasafni
„Það sem er búið að vera gerast síðustu tíu klukkutímana er langt frá mínum björtustu vonum og maður er gjörsamlega orðlaus," segir íþróttafréttamaðurinn Henry Birgir Gunnarsson, sem stendur fyrir Boladeginum svokallaða á samskiptasíðunni Twitter í dag.

Boladagurinn gengur út á að Íslendingar trufli erlendar stórstjörnur á Twitter. Markmiðið er að fá svar frá þeim á samskiptavefnum með öllum tiltækum ráðum. Sá sem fær svar frá stærstu erlendu stjörnunni er sigurvegari Boladagsins en þetta er í annað skiptið sem þessi dagur er haldinn á síðunni. Í fyrra sigraði körfuboltaspekingurinn Baldur Beck en hann fékk svar frá Fred Durst, söngvara Limp Bizkit og körfuboltamanninum Ron Artest.

Þátttakan hefur vægast sagt verið góð en Boladagurinn hófst á miðnætti og stendur yfir í sólarhring. „Skömmu eftir að ég byrjaði á Twitter þá uppgötvaði ég að þetta gæti verið algjörlega frábær leið til þess að drepa tímann. Í þröngra vinahópi ákváðum við að blása til þessa dags fyrir ári síðan með mjög fínum árangri og mikilli skemmtun. Það var pressa frá mörgum strax að þetta yrði árlegur viðburður og var það því ákveðið."

„Það er ótrúlegt að fylgjast með þeirri geðveiki sem er í gangi á Twitter og það verður magnað að fylgjast með þessu í allan dag. Það eru hundruð manna og þúsundir tísta, þetta er algjörlega með ólíkindum. Menn voru mjög ófrumlegir framan af en eftir því sem líður á eru frumlegheitin að detta í þetta. Það er mörg snilldar tíst að skila sér þó svo að því miður þurfi alltaf ákveðnir aðilar verða sér til skammar með einhverjum viðbjóðsheitum. En það er óhjákvæmilegur fylgifiskur allra fjöldasamkomna."

Hægt er að taka þátt í boladeginum á Twitter með því að skrifa #boladagur í lok tísts. Og þá er einnig hægt að fylgjast með völdum tístum á heimasíðu boladagsins, boladagur.wordpress.com






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.