Viðskipti innlent

Landsbankinn sendir út óleiðrétta greiðsluseðla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn ætlar að halda áfram að senda út greiðsluseðla vegna lána á sömu forsendum og áður þó svo að óvissa kunni að ríkja um hvort lán falli undir fordæmisgildi hæstaréttardóms sem féll þann 15 febrúar síðastliðinn. Niðurstaða dómsins varð sú að ekki mætti reikna íslenska seðlabankavexti afturvirkt á lán sem voru dæmd ólögleg í Hæstarétti sumarið 2010.

Í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér síðdegis hvetur bankinn greiðendur til að inna greiðslur af hendi á réttum tíma. Sú afstaða bankans styðst meðal annars við það sem fram kemur í dómi Hæstaréttar um mikilvægi þess að standa í skilum. Landsbankinn muni hins vegar bíða með lögfræðiinnheimtu vegna viðkomandi lána þar til niðurstaða bankans um stöðu lánanna liggur fyrir. Verði niðurstaðan sú að lán verði endurreiknað eftir greiðslu muni hugsanlegar ofgreiðslur verða leiðréttar.

Þá minnir Landsbankinn á að Samtök fjármálafyrirtækja hafi fyrir hönd fjármálafyrirtækja óskað eftir leyfi Samkeppniseftirlitsins til að eiga samstarf um viðbrögð við dóminum, meðal annars að því er varðar framkvæmd endurreiknings og skjóta úrlausn stefnumarkandi mála fyrir dómstólum. Ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um þetta sé nú beðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×