Viðskipti innlent

Björgólfur Thor með tilboð í 176 milljarða símafyrirtæki í Búlgaríu

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur lagt fram tilboð í stærsta símafyrirtæki Búlgaríu en það er metið á 176 milljarða króna.

Í erlendum fjölmiðlum er Björgólfur Thor sagður einn þeirra þriggja sem skiluðu inn tilboði í Vivacom stærsta símafyrirtæki Búlgaríu áður en tilboðsfrestur rann út fyrir síðustu mánaðarmót. Vivacom var áður í eigu Björgólfs Thor árin 2005 til 2007.

Vivacom er metið á 1,4 milljarða dollara eða 176 milljarða króna samkvæmt frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni. Bloomberg byggir sína frétt að hluta á frásögn blaðsins Capital í Búlgaríu. Þar segir að með Björgólfi Thor standi gríski fjárfestirinn Panos Germanos að tilboðinu í Vivacom. Fjárfestingarsjóðurinn Pamplona Capital Management sem staðsettur er í London hefur einnig sent inn tilboð.

Vivacom er svokallað allt í einum pakka fyrirtæki það er ef þú ert viðskiptavinur þess geturðu borgað fasta línu, breiðband, sjónvarp og farsímann í einum og sama reikningnum.

Áhugi Bloomberg á málinu snýst um að Turkcell, stærsta farsímafyrirtæki Tyrklands, mun hafa áhuga á að kaupa Vivacom.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×