Viðskipti innlent

Hjörtur Gíslason ráðinn ritstjóri Útvegsblaðsins

Hjörtur Gíslason, blaðamaður, hefur gengið til liðs við útgáfufélagið Gogg ehf. Hann verður ritstjóri Útvegsblaðsins ásamt Sigurjóni M. Egilssyni og mun ásamt skrifum í það, sinna skrifum í önnur blöð útgáfunnar.

Í tilkynningu segir að Hjörtur hóf störf við blaðamennsku árið 1976 í lausamennsku á íþróttadeild Morgunblaðsins og varð síðan fastráðinn blaðamaður á ritstjórn Mbl. árið 1980 og starfaði þar óslitið til ársins 2008. Vettvangur hans á Morgunblaðinu var sjávarútvegurinn og var hann ritstjóri sérblaðs Morgunblaðsins um sjávarútveg, Úr verinu, frá stofnun þess 1990 til 2005, þegar útgáfu þess var hætt.

Frá árinu 2008 vann Hjörtur að ritun 100 ára sögu Fiskifélags Íslands ásamt Jóni Hjaltasyni, sagnfræðingi, en sagan kom út undir lok síðasta árs. Á þeim tíma sinnti hann einnig ýmsum skrifum og verkefnum um sjávarútveg.

Með blaðamennskunni ritaði hann og ritstýrði fjórum bókum um sjávarútveg, Aflakóngum og athafnamönnum, þremur bindum, og Trillukörlum. Hann skrifaði auk þess ævisögu Soffaníasar Cecilssonar, útgerðarmanns og fiskverkanda á Grundarfirði og var í ritnefnd síldarsögu Íslands, Silfur hafsins – Gull Íslands og skrifaði að hluta til einn kafla þess ritverks, sem kom út 2007.

Hjörtur er kvæntur Helgu Þórarinsdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×