Viðskipti innlent

Gengi krónunnar styrktist um 1% eftir inngrip Seðlabankans

Gengi krónunnar styrkist um tæpt prósent síðdegis í gærdag eftir að Seðlabankinn ákvað að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn.

Bankinn seldi 12 milljónir evra eða sem svarar til tæplega 2 milljarða króna. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að óvenjumikið útstreymi hafi verið á gjaldeyri að undanförnu og telur bankinn það ástand tímabundið. Gengi krónunnar hafði veikst um 5% frá áramótum þar til bankinn greip inn í markaðinn

Fram kemur að undanþágur frá gjaldeyrislögum sem bankinn veitti nýlega hafa haft í för með sér umtalsverð gjaldeyriskaup. Áhrif á gengi krónunnar hafi orðið töluverð þar sem kaupin koma fram á sama tíma og innstreymi gjaldeyris vegna utanríkisviðskipta er í minna lagi og afborganir af erlendum lánum eru miklar.

Áður hefur Seðlabankinn keypt töluverðan gjaldeyri af fjármálafyrirtækjum í einstökum viðskiptum auk gjaldeyris sem bankinn kaupir í viku hverri. Aðgerðin í gær sé í samræmi við þá stefnu Seðlabankans að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði þegar þörf krefur í því skyni að draga úr gengissveiflum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×