Viðskipti innlent

Hart deilt um sölu á sorpeyðingastöð á Suðurnesjum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Sorpeyðingarstöðin Kalka.
Sorpeyðingarstöðin Kalka.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ hafnar öllum hugmyndum um sölu á sorpeyðingarstöðinni Kölku til erlendra aðila. Þeir vilja að íbúar fái að kjósa um málið.

Þetta kemur fram í bókun sem Samfylkingin lagði fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær vegna umræðu um tilboð Bandaríkjamanna um kaup á sorpeyðingarstöðinni Kölku stóð yfir. Bandaríkjamennirnir hyggjast nýta stöðina til að flytja inn iðnaðarsorp til brennslu á Suðurnesjum. Friðjón Einarsson er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar en hann segir flokkinn hafa fjallað mikið um þetta mál og leggjast alfarið gegn sölunni.

„Það þarf að brenna allt að þrisvar sinnum meira en brennt er núna, það þarf ða stækka stöðina tvöfalt og auk þess þarf að stækka lóðina umtalsvert og okkur finnst þetta bara alls ekki við hæfi að flytja sorp erlendis frá til að brenna hérna," segir Friðjón.

Hann segir að ef meirihlutinn í bæjarstjórn vill skoða málið eigi það að vera íbúanna að velja.

„Halda borgarafund um málið og íbúakosningu, þetta er kannski dæmigert mál til að ræða við íbúana um hvort þeir vilji flytja inn erlent sorp til brennslu hér," segir Friðjón.

Þá vilja þeir frekar nýta stöðina í framtíðinni til að vinna meira úr íslensku sorpi og bæta þannig rekstur stöðvarinnar sem hefur verið erfiður undanfarin misseri.

„Það er dálítið sorglegt til þess að hugsa að við viljum leysa okkar fjárhagsmál með því að selja allt sem við eigum, það er það sem hefur verið gert um margra ára skeið og við teljum að nú sé nóg komið," segir Friðjón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×