Viðskipti innlent

Útgjöld hins opinbera lækkuðu um 41 milljarð milli ára

Heildarútgjöld hins opinbera á síðasta ári námu 751 milljarði króna og lækkuðu um 41 milljarð króna milli ára eða um 5,2%.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að af heildarútgjöldum runnu 434 milljarða króna til þriggja stærstu útgjaldaflokka hins opinbera, heilbrigðis-, fræðslu-, almannatrygginga og velferðarmála eða sem svarar til 26,6% af landsframleiðslu.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 144,5 milljarðar króna 2011, eða 8,9% af lands-framleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 115,6 milljarðar króna en hlutur heimila um 29 milljarðar eða 20%. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 362 þúsund krónum og lækkuðu um 12 þúsund krónur milli ára, en frá árinu 2008 hafa þau lækkað um 52 þúsund krónur á mann á verðlagi 2011 eða 12,5%. Á árunum 2002 til 2008 voru þau svipuð á föstu verði eða á bilinu 405–415 þúsund krónur á verðlagi 2011.

Til fræðslumála var ráðstafað 129 milljörðum króna 2011, eða 7,9% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera um 117 milljarðar króna og hlutur heimilanna rúmlega 12 milljarðar króna, eða 9,4%. Á mann námu fræðsluútgjöld hins opinbera 366 þúsund krónum og hafa þau lækkað um 48 þúsund krónur frá 2008 á verðlagi 2011 eða um tæplega 12%.

Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 184 milljörðum króna 2011, eða 11,3% af landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×