Viðskipti innlent

Skuldir hins opinbera rúmlega 114% af landsframleiðslu

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.865 milljörðum króna í lok 2011 eða sem nam 114,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar nam skuld ríkissjóðs 1.629 milljörðum króna árið 2010 eða sem svarar 106,2% af landsframleiðslu.



Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 716 milljarða króna í lok síðasta árs samanborið við um 585 milljarða króna neikvæða eign árið 2010.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að tekjur hins opinbera námu 680 milljörðum króna 2011 samanborið við ríflega 637 milljarða króna árið áður og hækkuðu um 42 milljarðar króna milli ára eða 6,6%. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu tekjurnar 41,7%.

Mestu skiluðu tekjuskattar, eða 267 milljörðum króna, sem hækkuðu um 27,5 milljarða króna milli ára og skattar á vöru og þjónustu sem skiluðu 193 milljörðum og hækkuðu um 9,3 milljarða. Tryggingagjöldin gáfu 69 milljarða króna og hækkuðu 5,3 milljarða milli ára, en aðrar tekjur, aðallega vaxtatekjur og sala á vöru og þjónustu, lækkuðu hins vegar um ríflega 5 milljarða.

Útgjöld hins opinbera voru 751 milljarður króna árið 2011 eða sem svarar til 46,1% af landsframleiðslu og lækkuðu um 5,2% frá 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×