Viðskipti innlent

Mikil umframeftirspurn í skuldabréfaútboði Arion banka

Arion banki hf. lauk á föstudag fyrsta útboði bankans á sértryggðum skuldabréfum. Í boði voru 2,5 milljarðar kr. að nafnvirði af skuldabréfaflokknum Arion CBI 34. Í heild bárust tilboð upp á samtals 8.680 milljónir kr. og því var umframeftirspurn ríflega 6 milljarðar.

Í tilkynningu segir að flokkurinn hefur verið skráður í kauphöllinni í Lúxemborg og stefnt er á að hann verði tekinn til viðskipta í Kauphöllinni á Íslandi á morgun, þriðjudag.

Skuldabréfin bera 3,60% verðtryggða vexti og eru á lokagjalddaga árið 2034 en með uppgreiðsluheimild frá og með árinu 2017.

„Það er ánægjuefni að þetta fyrsta útboð bankans hafi fengið jákvæðar viðtökur hjá markaðnum. Ríflega þreföld eftirspurn sýnir trú á bankanum og því uppbyggingarstarfi sem hér hefur verið unnið á undanförnum árum. Það er mikilvægt fyrir okkur að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans og er útboðið nú liður í því. Þetta gefur okkur byr í seglin fyrir framhaldið," segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×