Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið skoðar kaupin á hlut í Verdis

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið ætlar að taka að nýju til athugunar kaup Landsbankans á eignarhlut í fyrirtækinu Verdis. Verdis hét áður Arion verðbréfavarsla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins vegna málsins.

Samkeppniseftirlitið hafði áður ógilt kaup Landsbankans á hlut í Verdis, og taldi samrunann raska samkeppni á markaði fyrir verðbréfaumsýslu með alvarlegum hætti. Ákvörðunin var kærð og 16. febrúar var hún ógilt af Samkeppniseftirlitinu.

Tilkynning Samkeppniseftirlitsins vegna málsins er eftirfarandi:

„Áfrýjunarnefnd leggur fyrir Samkeppniseftirlitið að taka að nýju til athugunar hvort unnt sé að setja kaupum Landsbankans á eignarhlut í Verdis skilyrði

Með ákvörðun nr. 34/2011 ógilti Samkeppniseftirlitið kaup Landsbankans hf. á eignarhlut í Verdis hf. (áður Arion verðbréfavarsla). Í samrunanum fólst m.a. að Landsbankinn og Arion banki færu saman með yfirráð í Verdis sem er ráðandi félag á markaði fyrir verðbréfaumsýslu. Var samruninn talinn raska samkeppni með alvarlegum hætti.

Samrunaaðilar kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði dags. 16. febrúar sl., hefur áfrýjunarnefndin ógilt ákvörðunina. Áfrýjunarnefnd tekur ekki afstöðu til efnisþátta málsins í úrskurði sínum en leggur fyrir Samkeppniseftirlitið að taka að nýju til athugunar hvort unnt sé að setja samrunanum skilyrði. Kemst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að áfrýjendur hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að þeirri meðferð sem hafin var undir rekstri málsins til þess að freista þess að setja samrunanum viðunandi skilyrði hafi ekki verið lokið er ákvörðunin var tekin.

Lagt er fyrir Samkeppniseftirlitið að veita áfrýjendum stuttan frest til að setja fram endanlegar tillögur um skilyrði fyrir samrunanum af sinni hálfu á grundvelli þeirra markmiða sem Samkeppniseftirlitið telur að verði að nást til að fullnægja þeim samkeppniskröfum sem gerðar eru.

Fyrir Samkeppniseftirlitinu liggur því að taka málið að nýju til meðferðar í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×