Viðskipti innlent

Ekkert lát á gengisfalli krónunnar

Enn lækkar gengi krónunnar og nálgast gengisvísitalan óðum 223 stig. Hefur gengi krónunnar ekki verið svo lágt miðað við gengisvísitöluna síðan um miðjan maí árið 2010.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Frá áramótum nemur veiking krónunnar rúmlega 2,5%, og af helstu viðskiptamyntum hefur krónan veikst einna mest gagnvart evrunni á tímabilinu. Kostar evran nú tæpar 164 krónur á innlendum millibankamarkaði en um síðustu áramót var hún á tæpar 159 krónur. Hefur krónan þar með veikst um rúm 3,0% á þessum tíma gagnvart evrunni, sem hefur ekki verið eins dýr og nú fyrir landann síðan í lok ágúst síðastliðins.

Gagnvart breska pundinu hefur krónan veikst um rúm 2,5%. Kostar pundið nú tæpar 196 krónur, og hefur ekki verið dýrara í krónum talið síðan snemma í maí árið 2010. Mun minni lækkun hefur verið á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar sem kostar nú rúmar 123 krónur. Er það svipað gengi og um síðustu áramót.

Ætla má að krónan muni áfram eiga á brattann að sækja á næstu mánuðum, en að sú þróun snúist svo við með hækkandi sól, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×