Viðskipti innlent

Tveir nefndarmenn af þremur vildu hækka stýrivexti

Magnús Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Tveir nefndarmanna í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lögðust gegn tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,75 prósentum, á síðasta fundi peningastefnunefndar. Samtals studdu þrír tillöguna og voru vextirnir þess vegna óbreyttir. Þessir tveir nefndarmenn, sem ekki eru nafngreindir í takt við venju þar um, vildu hækka vextina um 0,25 prósentur þar sem verðbólguhorfur hefðu versnað. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar, frá síðustu fundum nefndarinnar 6. og 7. febrúar, en hún var birt á vef Seðlabankans í dag.

Í fundargerðinni kemur fram að meginrök fyrir hækkun vaxta, sem rædd var, væru verri verðbólguhorfur en áður. Orðrétt segir í fundargerðinni:

„Nefndarmenn voru sammála um að verri verðbólguhorfur væru meginrökin fyrir hækkun

vaxta. Fram kom í umræðunum að þótt þróun verðbólgunnar til skamms tíma væri í

samræmi við væntingar væri nú spáð að hún hjaðnaði heldur hægar á árinu 2012 og

yrði, miðað við nokkurn veginn óbreytt gengi, heldur lengur fyrir ofan

verðbólgumarkmið bankans en hafði verið spáð í nóvember. Ennfremur væru

verðbólguvæntingar ennþá háar og raunvextir bankans hefðu lækkað frá síðasta fundi. Í

ljósi mikillar verðbólgu og hárra verðbólguvæntinga og að teknu tilliti til þess að

verðbólguhorfur fyrir þetta ár hefðu versnað, héldu því sumir nefndarmenn því fram að

vaxtahækkun væri nauðsynleg á þessum tímapunkti."

Í nefndinni eru auk Más, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Anne Sibert prófessor, og Gylfi Zoega prófessor.

Sjá má fundargerðina sem birt var í dag hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×