Viðskipti innlent

Dönsk stjórnvöld vilja skipta FIH bankanum í tvennt

Útlit er fyrir að tap Seðlabanka Íslands á sölunni af FIH bankanum í Danmörku verði enn meira en áður var talið.

Dönsk stjórnvöld vilja skipta FIH bankanum í tvo hluta. Þetta á að koma í veg fyrir það sem viðskiptablaðið Börsen kallar blóðbað meðal þeirra viðskiptavina sem tekið hafa fasteignalán hjá bankanum. FIH hefur verið að hreinsa til í lánabókum sínum og hefur innkallað lán með mikilli grimmd.

Börsen segir að leynilegar samningaviðræður hafi staðið vikum saman um málið. Ætlunin er að setja andvirði 15 milljarða danskra króna, eða yfir 300 milljarða króna af fasteignaútlánum FIH í sérstakt félag í eigu danska ríkisins. Síðan á að gera lánin upp eftir því sem staðan á danska fasteignamarkaðinum batnar.

Seðlabanki Íslands seldi FIH bankann haustið 2010. Stór hluti af söluverðinu upp á fimm milljarða danskra króna var bundið við gengi FIH fram til ársins 2014. Seðlabankinn hefur þegar tapað tugum milljarða króna á þessum samningi vegna mikil taps á rekstri FIH. Það tap mun ekki minnka ef þessi áform danskra stjórnvalda ganga eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×