Lífið

Njóta afrakstursins án samviskubits

myndir/valli
Vilborg Aldís Ragnarsdóttir og Hafdís Heiðarsdóttir stofnuðu hönnunarfyrirtækið Arca árið 2009 eftir að þær hönnuðu kökudisk á fæti sem sló í gegn. Vinkonurnar finna stundum fyrir samviskubiti gagnvart fjölskyldunni þegar álagið er sem mest í rekstrinum en láta það ekki stoppa sig þegar kemur að útrás en nú þegar er hönnun þeirra seld í París, Kaupmannahöfn og London.





Hvað varð til þess að þið stofnuðuð fyrirtækið Arca?

Vilborg: Við stofnuðum Arca í lok ágúst 2009. Kveikjan að öllu saman var kökudiskur á fæti en hann má taka í sundur og er afhentur í flötum pakkningum. Grunnhugmynd Arca er einmitt sú að varan á að vera notendavæn, stílhrein og fyrirferðar­mikil á borði en nett í geymslu.

Hafdís: Við höfum alveg frá byrjun haft það markmið að geta lifað af hönnun okkar og eitt af því er að koma vörunni á erlendan markað sem við erum byrjaðar að vinna í. Nú þegar er varan okkar seld í Kaupmannahöfn, París og London. Þessir söluaðilar fundu okkur á internetinu og höfðu samband við okkur á Facebook. Frakkar eru sjúkir í jökulinn og kertastjakana. Í Danmörku er eftirspurn eftir vöru úr áli frá okkur og í Bretlandi seljum við mikið af smávörunni.

Hvernig gengur samstarfið?

Hafdís: Ég er það heppin að vera að vinna með bestu vinkonu minni og samstarfið gengur í alla staði mjög vel. Við bætum hvor aðra upp og þegar við tvær komum saman þá er fátt sem stoppar okkur.

Vilborg: Við Hafdís erum það heppnar að eiga skap saman ásamt því að vera bestu vinkonur sem auðveldar vinnu okkar töluvert en gaman er að nefna það að langflestar hugmyndir hafa litið dagsins ljós yfir kaffibolla og hlátrasköllum án nokkurrar fyrirhafnar. Sameiginleg ástríða okkar beggja er klárlega að Arca nái þeim hæðum erlendis sem við vonumst til. Við höfum allt frá fyrsta degi litið á þetta sem tækifæri til að skapa okkur atvinnu og tekjulind.

Hvernig gengur að vera framakonur með stóra fjölskyldu?

Vilborg: Það er heilmikil vinna að reka fyrirtæki og sjá um heimili samhliða því. Ég bý samt að reynslu foreldra minna en þau hafa verið í rekstri frá því ég man eftir mér. Þegar mikið er um að vera og lítill tími sem gefst fyrir strákana mína finn ég best hve mikilvægt er að skipuleggja mig vel. Án þess væri ég ekki þar sem ég er í dag, ég fer aldrei út án þess að hafa með mér dagbók og paratabs.

Hafdís: Það gengur vel ef allir hjálpast að. Birta, elsta dóttir mín, er ofsalega dugleg að hjálpa mér með að passa litlu systkini sín. Ég gæti þetta ekki án hennar en óneitanlega er oft erfitt að samræma þetta allt saman, sérstaklega á álagstímum eins og t.d. um jólin. Þá erum við að vinna frá morgni til kvölds og ég hef lítinn tíma í hluti eins og að elda kvöldmat og læra með krökkunum. Við borðum t.d. skyndibita fyrir allt árið í desember. En við reynum alltaf a.m.k. að hafa frí á sunnudögum og þar reyni ég að troða vikudagskrá með fjölskyldunni á einn dag.

Finnið þið fyrir samviskubiti gagnvart fjölskyldunni þegar álagið tengt rekstrinum er sem mest?Vilborg: Vissulega hef ég samviskubit gagnvart strákunum þegar álagið er mikið. Ég held að fjörið sé nú bara rétt að byrja því vinnan hér heima er barnaleikur einn miðað við það sem tekur við erlendis. Þar eru hlutirnir ekki eins fljótir að gerast eins og hér. Allt ferlið tekur lengri tíma, meiri kostnaður og enginn tími fyrir mistök.

Hafdís: Ég held að maður búi sér oft til samviskubitið sjálfur, og ég er engin undantekning. Ég fæ samviskubit yfir ótrúlegustu smáhlutum og ég er til dæmis langt fram í janúar að vinna mig niður í samviskubitinu frá desembermánuði.

Vilborg: Við göntumst stundum með það að við ættum að njóta þess núna því óvíst er að við eigum eftir að hafa svo mikinn tíma að ári ef allt gengur samkvæmt áætlun. En fjölskyldan var nú meginástæða þess að við stofnuðum Arca. Við þurftum báðar að búa okkur til tekjulind. Tilgangurinn helgar svo meðalið. Í dag horfum við björtum augum til framtíðar með það að leiðarljósi að ef allt gengur upp þá sættum við okkur við smá samviskubit en á móti kemur öryggisnetið sem við byggjum upp með afkomu af rekstri sem gengur vel og gerir okkur kleift að leyfa fjölskyldunni að njóta á ýmsa vegu.

Ég held að við konur séum allt of móttækilegar fyrir tilhugsuninni um samviskubit gagnvart hinu og þessu fremur en karlmenn almennt. Af hverju ættum við ekki að feta í fótspor þeirra og líða jafn vel fyrir vikið þegar vinnutími eykst og tekjur aukast? Við erum nú búnar að berjast fyrir kvenréttindum í mörg ár – njótum afrakstursins í guðanna bænum.

Arca design á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.