Viðskipti innlent

Eignabjarg ætlar að selja að lágmarki 10 % í Högum

Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka hf. hefur ákveðið að bjóða til sölu að lágmarki 10% eignarhlut í Högum hf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með sölu hlutanna, sem mun fara fram í lokuðu útboði. Er ráð fyrir því gert að útboðinu ljúki fyrir 1. mars næstkomandi.

Stærð þess eignarhlutar sem seldur verður, mun ráðast af verðtilboðum þeirra fjárfesta sem leitað verður til, en núverandi eignarhlutur Eignabjargs nemur 19,3% í Högum að því er fram kemur í tilkynningu.

Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að það geri ekki athugasemd við að bankinn haldi eftir upp að 10% eignarhlut eftir söluna.

Sátt bankans við Samkeppniseftirlitið varðandi yfirtöku bankans á 95,7% hlutafjár í Högum er enn í gildi en samkvæmt samkomulagi við Samkeppniseftirlitið ber bankanum að ljúka sölu á hinum yfirtekna hlut fyrir 30. júní næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×