Viðskipti innlent

Íslenska krónan fallið um fjögur prósent

Íslenska krónan hefur fallið um meira en fjögur prósent gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands frá áramótum. Endurgreiðslur á erlendum lánum skýra lækkunina að hluta, en þær geta haft jákvæð áhrif til lengri tíma.

Það merkir að erlendar myntir eru heilt yfir farnar að kosta meira, til dæmis kostaði evran um 159 krónur um áramótin, en kostaði tæpar 166 krónur í gær. Það hefur þær afleiðingar að íslenskur útflutningur er að verða meira virði, en á móti kemur að innflutningur á vörum erlendis frá er að verða dýrari.

Dýrari innflutningur merkir að róður Seðlabankans í baráttunni við verðbólguna gæti þyngst, en aðilar á markaði bjuggust allt eins við stýrivaxtahækkun í mánuðinum, meðal annars vegna gengislækkunarinnar. Núverandi verðbólguspá bankans gengur út frá að gengi krónunnar gagnvart evru haldist nokkurnvegin óbreytt við 160 krónur, en það er nú nokkuð veikara eins og áður sagði.

Það má eflaust nefna nokkrar ástæður fyrir sigi gengisins.

Til dæmis hefur Bandaríkjadalur verið að sækja í sig veðrið undanfarna mánuði vegna aukins óróleika á evrusvæðinu, árstíðabundnir þættir og lakari viðskiptakjör skýra væntanlega almenna gengislækkun krónunnar að hluta, en einnig bendir ýmislegt til þess að útstreymi fjármagns sé vegna tiltölulega mikilla endurgreiðslna fyrirtækja og sveitarfélaga á erlendum lánum.

Þannig eru áhrifin hugsanlega jákvæð á erlenda skuldastöðu landsins, þótt endurgreiðslurnar þrýsti genginu niður í bili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×